Körfubolti

Halda Keflavík og Njarðvík áfram að bursta hvort annað?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Njarðvíkuringurinn Páll Kristinsson sést hér í fyrri deildarleik Njarðvíkur og Keflavíkur í vetur.
Njarðvíkuringurinn Páll Kristinsson sést hér í fyrri deildarleik Njarðvíkur og Keflavíkur í vetur. Mynd/Daníel

Reykjanesbæjarstórveldin í körfunni, Keflavík og Njarðvík, mætast í stórleik kvöldsins í Iceland Express deild karla í körfubolta. Leikurinn fer fram í Toyota-höll þeirra Keflvíkinga og hefst klukkan 19.15.

Það er mikið undir í leiknum í kvöld því liðin eru jöfn að stigum í 2. (Njarðvik) og 4. sæti (Keflavík) og eiga enn möguleika á deildarmeistaratitlinum. Slæmt gengi í innbyrðisviðureignum á móti toppliði KR gerir deildarmeistaratitilinn þó að fjarlægari möguleika.

Njarðvíkingar hafa verið á nokkru skriði og eru búnir að vinna þrjá leiki í röð þar á meðal 72-67 sigur á Stjörnunni í síðasta leik. Keflavíkurliðið tapaði aftur á móti síðasta leik sínum sem var á móti Grindavík.

Liðin hafa mæst tvisvar í vetur og hafa þar skipts á því að bursta hvort annað. Njarðvík komst mest 27 stigum yfir í deildarleiknum í Njarðvík í lok nóvember og vann að lokum 76-63. Keflavík bjargaði andlitinu með því að vinna síðustu fimm mínúturnar 17-6.

Keflavík hefndi með því að vinna 20 stiga heimasigur í átta liða úrslitum Subwaybikarsins en leikurinn fór fram í Keflavík í janúar. Keflavík vann annan leikhlutann 30-17 og var í 51-30 yfir í hálfleik.

Þetta var fyrsti leikurinn sem Sigurður Ingimundarson, núverandi þjálfari Njarðvíkur, stjórnar liði á móti Keflavík í Toyota-höllinni og hann ætlar sér örugglega að ná í fyrsta sigurinn á Keflavík í Toyota-höllinni í kvöld.

Njarðvíkingar geta í kvöld unnið fimmta deildarsigurinn í röð á nágrönnum sínum í Keflavík en Keflavík vann síðasta sigur á Njarðvík í úrvalsdeildinni 28. október 2007. Njarðvíkurliðið hefur einnig unnið 6 af síðustu 7 deildarleikjum liðanna eins og sjá má hér fyrir neðan.

Síðustu sjö deildarleikir Keflavíkur og Njarðvíkur:

2009-2010

30. nóvember 2009 í Njarðvík: Njarðvík vann 76-63

2008-2009

2. mars 2009 í Keflavík: Njarðvík vann 83-73

30. nóvember 2008 í Njarðvík: Njarðvík vann 77-75

2007-2008

27. janúar 2008 í Keflavík: Njarðvík vann 88-75

28. október 2007 í Njarðvík: Keflavík vann 78-63

2006-2007

23. febrúar 2007 í Keflavík: Njarðvík vann 83-70

21. desember 2006 í Njarðvík: Njarðvík vann 86-72






Fleiri fréttir

Sjá meira


×