Lífið

Leikur Afann í sínum fyrsta einleik á ferlinum

Sigurður fer með aðalhlutverkið í einleiknum Afinn sem verður frumsýndur í Borgarleikhúsinu í janúar.fréttablaðið/arnþór
Sigurður fer með aðalhlutverkið í einleiknum Afinn sem verður frumsýndur í Borgarleikhúsinu í janúar.fréttablaðið/arnþór
Sigurður Sigurjónsson leikur í einleiknum Afinn sem verður frumsýndur í Borgarleikhúsinu um miðjan janúar. Leikstjóri verður Bjarni Haukur Þórsson, sem lék einmitt undir stjórn Sigurðar í hinum vinsæla einleik Pabbinn fyrir þremur árum og í Hellisbúanum.

„Ég held að hugmyndin hafi orðið til þegar við vorum að vinna Pabbann,“ segir Sigurður. „Ég var staddur þar í lífinu að ég var orðinn afi og hann var til þess að gera nýorðinn pabbi. Þá varð hugmyndin til og ekki hjá því komist að hann skrifaði þetta. Við gátum borið saman bækur okkar allhressilega.“

Þetta verður fyrsta sinn á löngum og farsælum ferli sem Sigurður kemur fram í einleik. „Ætli þetta sé ekki gott á mig því ég er svo mikið búinn að leikstýra öðrum í einleikjum. Það hlaut að koma röðin að mér. Efnið er líka þannig að ég hlakka til að takast á við það. Það stendur mér nærri,“ segir Sigurður, sem á þrjú afabörn. Hann bætir við að Afinn fjalli ekki bara um að vera afi heldur einnig hvernig það er að vera maður á miðjum aldri með öllu sem því fylgir.

Um þrjátíu þúsund Íslendingar sáu Pabbann á sínum tíma, þar sem Bjarni Haukur fjallaði á gamansaman hátt um föðurhlutverkið í nútímasamfélagi. Sýningin gekk fyrir fullu húsi í Iðnó í langan tíma, var sýnd úti á landi og svo aftur í Reykjavík í Íslensku óperunni. Pabbinn var í framhaldinu seldur til Norðurlandanna, þar sem tólf mismunandi sýningar eru í gangi um þessar mundir, auk þess sem DVD-diskur var gefinn út.

Með Afanum vill Bjarni Haukur fylgja eftir vinsældum Pabbans. Hann samdi einleikinn alfarið með Sigurð Sigurjónsson í huga, enda hafa þeir átt gott samstarf á undanförnum árum. „Óumflýjanlegt framhald Pabbans er Afinn, sama hvernig á það er litið,“ segir Bjarni Haukur. „Pabbinn gekk vel. Rúmlega þrjátíu þúsund sáu hann, þannig að þetta er rökrétt framhald. Magnús Geir og félagar hjá Borgarleikhúsinu tóku því fagnandi að starfa með okkur og það er náttúrulega alveg frábært. Það er líka engum blöðum um það að fletta að Sigurður Sigurjónsson er einn ástsælasti leikari íslensku þjóðarinnar og gaman að hann verði loksins einn í svona sýningu.“ freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.