Innlent

Áfram ódýrt þrátt fyrir gjaldskrárhækkanir

Þrátt fyrir skatta- og gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar er hvergi ódýrara á höfuðborgarsvæðinu að vista barn á frístundaheimili, systkinaafsláttur á leikskóla er mestur í Reykjavík og lóðarleiga lægst. Þá er nær helmingi dýrara að setja barn á leikskóla á Seltjarnarnesi en í Reykjavík.

Þetta kemur fram í tölum sem fréttastofa fékk innan úr borgarkerfinu. Hugmyndum meirihluta Besta flokks og Samfylkingar um að hækka skatta og gjaldskrár var ekki tekið fagnandi þegar þær birtust fólki í vikunni. Útsvar verður á næsta ári hækkað í 13,2%, fasteignaskattar hækkaðir, sömuleiðis lóðarleiga, leikskólagjöld, sorphirðugjöld, vistun á frístundaheimili hækkar um 20% og svo mætti áfram telja. Sjálfstæðismenn í minnihlutanum sögðu þessa fjárhagsáætlun þýða allt að 150 þúsund króna útgjaldaaukningu á ári fyrir fjögurra manna fjölskyldu í borginni - meirihlutinn hins vegar telur útgjöldin aukast hjá kjarnafjölskyldunni um 50 þúsund krónur eða þar um kring.

En samkvæmt áðurnefndum samanburðartölum frá borginni kemur í ljós að því fer fjarri að dýrast verði að vera þegn í Reykjavík hér á suðvesturhorninu á næsta ári. Í tölunum eru borin saman gjöld hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Þrátt fyrir þessar hækkanir hjá borginni - er útsvarið langhæst í hinu hrjáða sveitarfélagi Álftaness en bæði Kópavogur, Hafnarfjörður og Reykjanesbær innheimta hærra útsvar en Reykjavík. Fasteignaskattar eru líka langhæstir á Álftanesi, 0,4% en verða 0,225% í Reykjavík á næsta ári. Lóðarleiga er langlægst í Reykjavík og er raunar níu sinnum hærri í Reykjanesbæ. Þá er systkinaafsláttur á leikskólum langmestur í Reykjavík, eða 75% - en 50 og 30% hjá nágrannasveitarfélögum. Skólamatur í grunnskóla er dýrastur fyrir foreldra á Seltjarnarnesi og fimm daga vistun á frístundaheimili verður, þrátt fyrir 20% hækkun, lægst í Reykjavík, rúmar 10 þúsund krónur miðað við rúmar 17 þúsund á Álftanesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×