Hver vill leið B? Óli Kristján Ármannsson skrifar 24. mars 2010 06:15 Enn er hver höndin komin upp á móti annarri í björgunarbátnum sem þjóðin velkist í eftir skipbrot stjórnarhátta undangenginna áratuga, hrun krónunnar og fjármálafyrirtækjanna. Síðasti afleikurinn í óhappasögu þessarar þjóðar er upphlaup Samtaka atvinnulífsins (SA) vegna þess að ríkisstjórnin fór ekki að vilja útvegsmanna við endurskoðun á úthlutun veiðiheimilda á skötusel. Samtökin segja ákvörðunina „kornið sem fyllti mælinn" og hafa sagt sig frá stöðugleikasáttmálanum. Kannski er það til marks um áhrifavald hagsmunaaðila í sjávarútvegi að látið skuli brjóta á jafnlitlu máli þegar að stöðugleikasáttmálanum kemur. Í röksemdafærslu SA á vef samtakanna í gær eru þó talin upp mörg dæmi þar sem ríkisstjórnin er sögð hafa farið á svig við umræddan sáttmála. Er því borið við að seinagangur hafi verið í atvinnumálum, skattahækkanir hafi verið úr takti við það sem ákveðið hafi verið, gjaldeyrishöft séu enn við lýði og í morgunútvarpi gærdagsins mátti heyra Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, kalla enn eftir vaxtalækkun Seðlabankans. Í huga leikmanns skýtur þó upp þeirri hugsun hvort ríkisstjórn landsins séu með þessu ekki ætlaðar fullmiklar sakir. Háir vextir og gjaldeyrishöft um ófyrirséða framtíð skrifast jú á þá óvissu sem ríkir vegna dráttar á lausn deilunnar um Icesave, sem aftur tefur efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Vandséð er að margir hafi lagst á árar með ríkisstjórninni í að leysa þau mál. Nú síðast var það þjóðin sjálf sem kaus yfir sig óbreytt ástand. Lítið virðist standa eftir af fullyrðingunni um hversu mikið einróma „nei" myndi styrkja samningsstöðu landsins. Núna ágerist líka umræða um að í skjóli gjaldeyrishafta þurfi ekki háa vexti til að styðja við gengi krónunnar. Vexti megi lækka strax og losa með því peninga til „góðra verka". Skoðun þessi á hljómgrunn hjá hagsmunasamtökum jafnt sem í „villta vinstrinu". Undirrituðum þykir hins vegar vanta að sögunni fylgi hvað gerist svo. Ávæning af því mátti heyra hjá Má Guðmundssyni seðlabankastjóra við vaxtaákvörðun bankans 17. þessa mánaðar. Þar ræddi hann um leið „B" í efnahagsmálum, sem verður æ líklegri eftir því sem lausn Icesave dregst. Leiðin felur í sér að hverfa verður frá efnahagsáætluninni sem unnin var í samvinnu við AGS. Hægt verður að lækka vexti bratt, en gjaldeyrishöftum verður haldið um ófyrirséða framtíð. Naumlega verði hægt að forða greiðsluþroti ríkisins í lok næsta árs og byrjun þess þarnæsta þar sem miklir gjalddagar erlendra lána bíða. Er þá ósvarað spurningunni um það hvort segja verði upp samningnum um evrópska efnahagssvæðið þar sem kveðið er á um frjálst flæði fjármagns. Gjaldeyrishöftin eru látin viðgangast eins og er vegna þess að þau eru sett á í skjóli AGS. Óvíst er að höftin verði látin viðgangast verði horfið frá samstarfi við sjóðinn. Sömuleiðis verður að velta fyrir sér viðhorfi umheimsins til landsins sem neitar að greiða skuldir sínar við Breta og Hollendinga. Eitt er að stjórna og reyna að taka ábyrgar ákvarðanir og annað að hrópa ábyrgðarlaust á vanhugsuð úrræði. Hvaða framtíð sjá þeir fyrir sér landi og þjóð til handa sem hvað ötulastir eru í hlutverki gagnrýnenda? Má biðja um svör sett fram í fullri alvöru? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óli Kr. Ármannsson Mest lesið Með háskólapróf til að snýta og skeina? Hildur Sólmundsdóttir Skoðun Hérna eru aukalega 6000 íbúðir. Veskú Ævar Rafn Hafþórsson Skoðun Við þekkjum öll einn alkóhólista - hættum að stinga höfðinu í sandinn Bryndís Rós Morrison Skoðun Staðreyndir um jafnlaunavottun Bryndís Elfa Valdemarsdóttir ,Jón Fannar Kolbeinsson Skoðun Sterkara flutningskerfi tryggir öruggara rafmagn fyrir heimili og atvinnulíf Fida Abu Libdeh Skoðun Missum ekki af orkuskiptalestinni Tómas Þór Þórðarson Skoðun Börnum fórnað fyrir bætt kjör Guðný Hrafnkelsdóttir Skoðun Ert þú með geðsjúkdóm? Mjög líklega... Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Fimm ástæður fyrir að vextirnir eru á réttri leið Konráð S. Guðjónsson Skoðun Fastur heimilislæknir sem þekkir þig Kristrún Frostadóttir Skoðun
Enn er hver höndin komin upp á móti annarri í björgunarbátnum sem þjóðin velkist í eftir skipbrot stjórnarhátta undangenginna áratuga, hrun krónunnar og fjármálafyrirtækjanna. Síðasti afleikurinn í óhappasögu þessarar þjóðar er upphlaup Samtaka atvinnulífsins (SA) vegna þess að ríkisstjórnin fór ekki að vilja útvegsmanna við endurskoðun á úthlutun veiðiheimilda á skötusel. Samtökin segja ákvörðunina „kornið sem fyllti mælinn" og hafa sagt sig frá stöðugleikasáttmálanum. Kannski er það til marks um áhrifavald hagsmunaaðila í sjávarútvegi að látið skuli brjóta á jafnlitlu máli þegar að stöðugleikasáttmálanum kemur. Í röksemdafærslu SA á vef samtakanna í gær eru þó talin upp mörg dæmi þar sem ríkisstjórnin er sögð hafa farið á svig við umræddan sáttmála. Er því borið við að seinagangur hafi verið í atvinnumálum, skattahækkanir hafi verið úr takti við það sem ákveðið hafi verið, gjaldeyrishöft séu enn við lýði og í morgunútvarpi gærdagsins mátti heyra Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, kalla enn eftir vaxtalækkun Seðlabankans. Í huga leikmanns skýtur þó upp þeirri hugsun hvort ríkisstjórn landsins séu með þessu ekki ætlaðar fullmiklar sakir. Háir vextir og gjaldeyrishöft um ófyrirséða framtíð skrifast jú á þá óvissu sem ríkir vegna dráttar á lausn deilunnar um Icesave, sem aftur tefur efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Vandséð er að margir hafi lagst á árar með ríkisstjórninni í að leysa þau mál. Nú síðast var það þjóðin sjálf sem kaus yfir sig óbreytt ástand. Lítið virðist standa eftir af fullyrðingunni um hversu mikið einróma „nei" myndi styrkja samningsstöðu landsins. Núna ágerist líka umræða um að í skjóli gjaldeyrishafta þurfi ekki háa vexti til að styðja við gengi krónunnar. Vexti megi lækka strax og losa með því peninga til „góðra verka". Skoðun þessi á hljómgrunn hjá hagsmunasamtökum jafnt sem í „villta vinstrinu". Undirrituðum þykir hins vegar vanta að sögunni fylgi hvað gerist svo. Ávæning af því mátti heyra hjá Má Guðmundssyni seðlabankastjóra við vaxtaákvörðun bankans 17. þessa mánaðar. Þar ræddi hann um leið „B" í efnahagsmálum, sem verður æ líklegri eftir því sem lausn Icesave dregst. Leiðin felur í sér að hverfa verður frá efnahagsáætluninni sem unnin var í samvinnu við AGS. Hægt verður að lækka vexti bratt, en gjaldeyrishöftum verður haldið um ófyrirséða framtíð. Naumlega verði hægt að forða greiðsluþroti ríkisins í lok næsta árs og byrjun þess þarnæsta þar sem miklir gjalddagar erlendra lána bíða. Er þá ósvarað spurningunni um það hvort segja verði upp samningnum um evrópska efnahagssvæðið þar sem kveðið er á um frjálst flæði fjármagns. Gjaldeyrishöftin eru látin viðgangast eins og er vegna þess að þau eru sett á í skjóli AGS. Óvíst er að höftin verði látin viðgangast verði horfið frá samstarfi við sjóðinn. Sömuleiðis verður að velta fyrir sér viðhorfi umheimsins til landsins sem neitar að greiða skuldir sínar við Breta og Hollendinga. Eitt er að stjórna og reyna að taka ábyrgar ákvarðanir og annað að hrópa ábyrgðarlaust á vanhugsuð úrræði. Hvaða framtíð sjá þeir fyrir sér landi og þjóð til handa sem hvað ötulastir eru í hlutverki gagnrýnenda? Má biðja um svör sett fram í fullri alvöru?
Sterkara flutningskerfi tryggir öruggara rafmagn fyrir heimili og atvinnulíf Fida Abu Libdeh Skoðun
Sterkara flutningskerfi tryggir öruggara rafmagn fyrir heimili og atvinnulíf Fida Abu Libdeh Skoðun