Körfubolti

Burns verri í dag en í gær - er í skoðun á sjúkrahúsinu í Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Draelon Burns.
Draelon Burns. Mynd/Daníel
Það er mikil óvissa í kringum framhaldið hjá Draelon Burns, leikmanni Keflavíkur, sem gat aðeins spilað í rúmar 22 mínútur í öðrum úrslitaleik Keflavíkur og Snæfells í gær. Burns skoraði bara átta stig í leiknum og var greinilega meiddur.

Það er ekki vitað nákvæmlega hversu alvarleg meiðslin hjá Burns eru. Hann var því sendur í skoðun á bráðamóttökunni á sjúkrahúsinu í Keflavík þar sem hann er þessa stundina..

„Hann er verri í dag en hann var í gær sem er slæmt. Við vitum ekki nákvæmlega hvað er að angra hann. Núna virðist þetta vera aðeins stífara og hann er mjög þungur," sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur í samtali við Vísi.

„Við verðum bara að fá að vita hvort að þetta sé eitthvað meira eða minna og vinna síðan út frá því. Við þurfum þá að athuga hvort eitthvað sé hægt að gera fyrir hann," segir Guðjón sem er ekki farinn að leita að nýjum leikmanni en viðurkennir að það gæti orðið lausnin.

„Við erum ekki farnir að leita að nýjum leikmanni ennþá en við verðum að gera eitthvað ef þetta fer á versta veg. Við munum þá líta í kringum okkur en ég er að bíða eftir að heyra í honum," sagði Guðjón en Burns er eins og er í læknisskoðun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×