Körfubolti

Pavel horfir á þátt um geimverur fyrir leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pavel í strangri gæslu í fyrsta leiknum.
Pavel í strangri gæslu í fyrsta leiknum. Mynd/Daníel

„Ég er bara að slaka á fyrir leikinn. Það er nauðsynlegt að safna kröftum og vera ferskur í kvöld. Ég reif mig upp rúmlega tíu og borða svo pasta og kjúkling á eftir. Eldað á einfaldan hátt," sagði KR-ingurinn Pavel Ermolinskij við Vísi en hann var að hafa það náðugt á Akranesi hjá móður sinni og mun svo hitta félaga sína í KR-liðinu í Borganesi á eftir.

„Ég er ekkert að horfa á neitt sérstakt. Núna er ég að horfa á þátt um geimverur á National Geographic. Afar spennandi. Ég er ekki eins hjátrúarfullur núna og ég var þegar ég var á Spáni. Þá var ég með plan nánast upp á mínútu. Borðaði alltaf sama matinn, horfði á sömu sjónvarpsstöðina og fór í sömu fötunum," sagði Pavel léttur.

KR tapaði eins og kunnugt er fyrsta leiknum og er því með bakið upp við vegginn fræga í kvöld.

„Þetta verður hörkugaman í kvöld. Við erum vissulega í erfiðri stöðu og það er ekkert auðvelt að þurfa að fara í Hólminn í þessari stöðu.  Við bara verðum að vinna, það er ekkert öðruvísi. Það verður samt ekki auðvelt eins og ég segi enda er Snæfell með frábært lið og líklega það lið sem er sterkast á landinu þessa dagana," sagði Pavel.

Hann átti erfitt uppdráttar í fyrsta leik og Snæfellingar hafa hampað sjálfum sér fyrir góðan leik gegn honum. Pavel vill ekki kvitta undir það.

„Ég lít frekar á það þannig að ég hafi átt slæman dag frekar en að þeir hafi verið svona frábærir. Það var ekki þeirra herkænsku að þakka að ég var slakur. Ég átti bara ekki góðan dag. Þeir koma mér ekkert úr jafnvægi í kvöld. Ég hef lent í því áður að fá pressu á mig," sagði Pavel ákveðinn en hann segir það hjálpa KR að hafa unnið í Hólminum um daginn þegar mikið var undir.

„Við hugsum um hvað við gerðum rétt þá og reynum að endurtaka leikinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×