Íslenski boltinn

Freyr: Stelpurnar eiga skilið að fagna loksins á laugardegi

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Freyr fagnar um leið og flautað var af í dag.
Freyr fagnar um leið og flautað var af í dag. Mynd/HÞH
Freyr Alexandersson var stoltur maður eftir að Valur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deild kvenna í kvöld. Freyr stýrði liðinu einn annað árið í röð, og í bæði skiptin vann hann tvöfalt með liðið.

Freyr var áður aðalþjálfari með Elísabetu Gunnarsdóttur árið 2008 auk þess sem hann var viðloðinn þjálfun liðsins árið 2007.

Þetta er í fimmta árið í röð sem Valur verður Íslandsmeistari og það tíunda í sögunni.

Þar sem bæði Þór/KA og Breiðablik töpuðu í dag gat Valur orðið meistari og eftir að hafa lent undir eftir nokkrar sekúndur röðuðu þær inn átta mörkum og tryggðu sér titilinn.

"Ég átti aldrei von á því að FH ynni Breiðablik, með fullri virðingu fyrir FH. Þetta kom skemmtilega á óvart," sagði Freyr brosmildur.

"Eftir að við heyrðum úrslitin var auðveldara að peppa liðið upp í leikinn. Þær fóru inn á með fiðrildi í maganum og skítaglott á vör," sagði Freyr og brosti.

"En við vorum búin að leggja leikinn upp og við breyttum engu sérstöku. Þrátt fyrir áfall á fyrstu mínútu gekk upp að klára þetta," sagði Freyr.

Framundan er partý hjá liðinu sem fær loksins að fagna á laugardegi. "KSÍ er hrifið af því að hafa lokaleikina á sunnudögum en loksins fær liðið að fagna á laugardagskvöldi, og það eiga þær svo sannarlega skilið," sagði Freyr sem ætlar þó ekki að halda liðspartýið í kvöld.

"En ég er hrikalega stoltur af liðinu," sagði Freyr brosandi.

Nánar er rætt við Frey í Fréttablaðinu á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×