Körfubolti

Karl Jónsson: Ósáttir við að tapa með þessum hætti

Elvar Geir Magnússon í Keflavík skrifar
Tindastóll er kominn í sumarfrí.
Tindastóll er kominn í sumarfrí.

„Keflvíkingar voru númeri of stórir fyrir okkur í kvöld," sagði Karl Jónsson, þjálfari Tindastóls, eftir tapið í Keflavík. Heimamenn unnu oddaleikinn 107-78 og sendu Tindastól í sumarfrí.

„Ég er ekki sáttur við hvernig við komum í leikinn. Við hefðum getað veitt þeim grimmari keppni. Það býr það mikið í mínu liði að við hefðum vel getað gert betur. Við erum ósáttir við að tapa með þessum hætti, við vildum allavega gera það með reisn ef það yrði niðurstaðan.

Karl segir framtíðina bjarta í körfuboltanum á Sauðárkróki.

„Við komumst allavega skrefinu lengra en fólk átti von á. Það er hægt að byggja upp á þetta lið. Við erum komnir með þéttan hóp heimastráka og nú þurfum við að setjast yfir hlutina. Við þurfum að fá atvinnuþjálfara inn í klúbbinn til að taka meistaraflokk og hjálpa okkur með yngri flokkana. Þá getum við tekið skref fram á við."

Hann segir Keflavík hafa það sem þarf til að fara alla leið en liðið mætir Njarðvík í undanúrslitunum. „Restin af þessari úrslitakeppni verður alveg geggjuð. Ég vona að við höfum haldið Keflvíkingum á tánum. Þeir eru heitir, þurftu þrjá leiki á móti okkur," sagði Karl Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×