Eitt magnaðasta met íþróttasögunnar er tvímælalaust sá ótrúlegi fjöldi leikja sem leikstjórnandinn Brett Favre hefur spilað í röð í NFL-deildinni. Allt tekur enda og svo á einnig við um met Favre.
Hann mun ekki geta leikið með Minnesota Vikings í kvöld gegn NY Giants vegna meiðsla. Sá leikur var þegar merkilegur fyrir þær sakir að hann þarf að fara fram í Detroit eftir að þakið hrundi á heimavelli Minnesota. Nú er þessi leikur farinn í sögubækurnar.
Allt frá því Favre lék sinn fyrsta leik fyrir Green Bay Packers árið 1992 hefur hann byrjað alla leiki sína á ferlinum. Alls var Favre búinn spila 297 deildarleiki í röð og leikirnir eru vel yfir 300 ef leikir í úrslitakeppni eru taldir með.
Þetta met er algerlega einstakt enda er amerískur fótbolti hörð íþrótt, meiðsli tíð og ferill leikmanna styttri en í öðrum íþróttum. Leikstjórnendur fá þess utan oft í leik harða skelli og þunga menn ofan á sig. Aðrir leikmenn hreinlega reyna að meiða þá og koma þeim úr leiknum.
Favre hefur meðal annars spilað ökklabrotinn í vetur en axlarmeiðsli sem hann varð fyrir í leik gegn Buffalo um síðustu helgi settu þennan 41 árs gamla harðjaxl loks á bekkinn og reyndar alla leið í stúkuna núna.
Favre hefur verið í deildinni í 20 ár og það verður vafalítið sérstök reynsla fyrir hann að fylgjast með leik kvöldsins úr stúkunni.
Fyrsti leikur Favre í stúkunni á 20 ára ferli
Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Mest lesið

„Hann hefði getað fótbrotið mig“
Enski boltinn


VAR í Bestu deildina?
Íslenski boltinn

Howe lagður inn á spítala og missir af leiknum
Enski boltinn






Fleiri fréttir
