Sport

Manny ætlar að taka einn bardaga í viðbót áður en hann fer á þing

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manny Pacquaio fagnar sigri.
Manny Pacquaio fagnar sigri. Nordic Photos / AFP

Manny Pacquiao segist ætla að taka einn bardaga í viðbót og vonar að það verði gegn Floyd Mayweather.

Pacquaio er nefnilega á leið á þing í Filippseyjum þar sem talið er að hann hafi unnið yfirburðasigur í sínu héraði í þingkosningum þar í landi. Hann hefur síðustu ár verið talinn besti hnefaleikakappi heims en Pacquaio er 31 árs gamall.

Mayweather var hættur en er byrjaður að berjast aftur og vann síðast sannfærandi sigur á Shane Mosley. Mayweather hefur aldrei tapað bardaga á sínum ferli og er það von margra hnefaleikaáhugamanna að þessir tveir mætist einn daginn í hringnum.

Fulltrúar þeirra áttu í löngum viðræðum fyrr á þessu ári um að koma á bardaga á milli þeirra tveggja en ekki var sátt um hvernig lyfjaprófunum fyrir bardagann skyldi háttað.

„Margir af mínum stuðningsmönnum vilja að ég berjist við Floyd Mayweather. Ég hef spurt mömmu mína hvort við getum veitt þeim einn bardaga til viðbótar og samþykkti hún það," sagði Pacquaio í samtali við fjölmiðla í heimalandinu.



Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×