Körfubolti

Pétur Ingvarsson: Snæfell græðir á því ef þetta fer út í slagsmál

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Ingvarsson, þjálfara Hauka.
Pétur Ingvarsson, þjálfara Hauka. Mynd/Valli
KR og Snæfell leika í kvöld hreinan úrslitaleik um sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla í körfubolta. Vísir fékk Pétur Ingvarsson, þjálfara Hauka til þess að spá í leik kvöldsins sem hefst klukkan 19.15 í DHL-höllinni í Frostaskjóli og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

„Ég held að KR vinni þetta. Ég held að KR-ingar séu með betri einstaklinga innan liðsins þegar þeir koma allir tilbúnir í þetta. Ef þeir eru allir tilbúnir að berjast í þessu saman þá vinna þeir þetta," segir Pétur Ingvarsson,

„Það verður jafnt en ég held að KR-ingar vinni þetta nokkuð sannfærandi engu að síður. Hvort sem þeir vinna þetta með tveggja stiga tölu er ekki aðalmálið en þeir eiga eftir að vera með forustuna og vinna þetta örugglega," segir Pétur.

„KR-ingar eiga það mikið inni hjá Brynjari og Tommy Johnson og þeir geta farið í gang. Mér finnst eins og Snæfellingarnir séu að reyna að espa þá tvo upp í slagsmál. Þeir eru ágætis slagsmálahundar en þeir eru miklu betri körfuboltamenn og þurfa að einbeita sér miklu meira að því að spila körfubolta," segir Pétur.

Brynjar hefur „bara" skorað 9,8 stig að meðaltali í einvígi og aðeins 26 prósent skota hans (12 af 47) hafa ratað rétta leið í körfuna.

„Ef Brynjar er kominn í slagsmálagírinn þá er hann alveg til í það en þá verður hann bara ömurlegur körfuboltamaður í staðinn. Það sama má segja um Tommy," segir Pétur en Tommy Johnson er með 8,8 stig að meðaltali og 24 prósent skotnýtingu (11 af 46) í einvíginu

„Ef Snæfellingarnir ná að fara út í einhvern Keflavíkurleik, eins og Keflavíkur-Njarðvíkur leikurinn var í gær (fyrrakvöld), þá getur Snæfell alveg unnið þetta. Snæfell græðir á því ef þetta fer út í einhver slagsmál. Ef þetta verður fallegur körfubolti innan gæsalappa þá held ég að KR-ingarnir eigi eftir að vinna þetta," segir Pétur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×