Bíó og sjónvarp

Húmoristinn og harðjaxlinn sameinast

Kvikmyndin Cop Out fjallar um lögreglumanninn og reynsluboltann Jimmy Monroe sem er miður sín eftir að verðmætu körfuboltaspili hans er stolið. Monroe deyr auðvitað ekki ráðalaus, hefur sterkan grun um hver þjófurinn er og fær félaga sinn, Paul Hodges, í lið með sér til að hafa uppi á spilinu enda á salan á því að borga fyrir brúðkaup dóttur Monroe.

Eltingaleikurinn verður hins vegar kostulegur enda er þjófurinn fremur siðspilltur glæpamaður sem er með ólæknandi fíkn í sögulegar íþróttaminjavörur.

Cop Out er eftir hinn mistæka kvikmyndagerðarmann Kevin Smith. Hann sló eftirminnilega í gegn með myndum á borð við Clerks og Mallrats. Hann átti hins vegar erfitt með að finna taktinn á ný eftir þær tvær en virðist smám saman vera að ná áttum, í það minnsta fékk síðasta myndin hans, Zack and Miri Make Porno, alveg ágætis dóma.

Aðalleikararnir tveir í Cop Out eru á ólíkum stað á sínum ferli. Bruce Willis, sem leikur Monroe, er smám saman að átta sig á því að aldurinn er að taka völdin og að hann getur kannski ekki mikið lengur hlaupið um stræti stórborga eins og á árum áður. Engu síður er Willis ein vinsælasta kvikmyndastjarna heims og fáir leikarar hafa jafnmikinn húmor fyrir sjálfum sér og hann.

Tracy Morgan, sem fer með hlutverk félagans Pauls Hodges, er smám saman að sjá ávexti erfiðisins en hann hefur verið frábær sem hinn ofurheimski Tracy Jordan í gamanþáttunum 30 Rock.- fgg

Hér má sjá sýnishorn úr myndinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×