Sport

Slæmur kjötbiti varð Contador að falli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alberto Contador sat fyrir svörum á fjölmennum blaðamannafundi í dag.
Alberto Contador sat fyrir svörum á fjölmennum blaðamannafundi í dag. Nordic Photos / AFP
Hjólreiðakappinn Alberto Contador greindi frá því á blaðamannafundi í dag að hann hefði fallið á lyfjaprófi eftir að hann vann Tour de France í síðasta mánuði.

Contador er 27 ára Spánverji og þykir færasti hjólreiðakappi heims. Hann hefur þrívegis fagnað sigri á Tour de France og í tvö síðustu skiptin.

Hann féll hins vegar á lyfjaprófi í síðasta mánuði og er óvíst hvort að sigurinn verði dæmdur af honum. Hann segist saklaus en óhætt er að segja að þetta sé engu að síður slæmt áfall fyrir hjólreiðaíþróttina sem hefur þurft að glíma við ófá lyfjahneykslin í gegnum tíðina.

Contador segir að hann hafi ekki vísvitandi neytt ólöglegra lyfja. „Ég fékk einfaldlega matareitrun," sagði hann á blaðamannafundi og hafði kjöt sem hann hafði fengið frá heimalandinu sérstaklega grunað.

„Hvort sem fólk trúir mér eða ekki þá get ég staðið beinn í baki og ég hef ekkert að fela."

Bannefnið fannst í mjög litlu magni í sýni Contador. „Það eru aðeins fjórar rannsóknarstofur í heiminum sem hefðu getað fundið þetta. Þetta eru einfaldlega mistök. Ég set stórt spurningamerki við þetta kerfi og því verður einfaldlega að breyta. Ég get engan veginn liðið að verða dæmdur í bann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×