Tom Waits, Beastie Boys, Bon Jovi og Alice Cooper eru á meðal þeirra sem hafa verið tilnefndir í Frægðarhöll rokksins. Meira en fimm hundruð manns úr bandaríska tónlistarbransanum taka þátt í valinu og verður ákvörðun þeirra tilkynnt í desember.
Athöfnin fer fram í mars á næsta ári í New York. Á meðal annarra tilnefndra voru rapparinn LL Cool J, Neil Diamond, Donovan, og Donna Summer.
Til að vera gjaldgengir í Frægðarhöllina þurfa 25 ár að hafa liðið síðan flytjendur gáfu út sína fyrstu smáskífu. Þess má geta að fyrsta smáskífa Tom Waits kom út árið 1973, eða fyrir 37 árum.