Lífið

Hagþenkir úthlutar

Veittur var styrkur fyrir heimildarmynd eftir Ragnheiði Gestsdóttur um þátttöku Ragnars Kjartanssonar á Feneyjartvíæringnum.
Veittur var styrkur fyrir heimildarmynd eftir Ragnheiði Gestsdóttur um þátttöku Ragnars Kjartanssonar á Feneyjartvíæringnum.
Hagþenkir félag höfunda fræðirita og kennslugagna, úthlutaði á fimmtudag 38 verkefnum starfsstyrkjum sem samstals námu 12 milljónum króna. Fjórir höfundar hlutu hæsta styrk sem nam 600 þúsund krónum: Clarence E. Glad, Gylfi Gunnlaugsson, Ingibjörg Guðrún Guðjónsdóttir og Jón Hjaltason. Algengasta styrkupphæðin er 300 þúsund krónur en lægsta upphæðin er 120 þúsund krónur.

Hagþenkir úthlutar starfsstyrkjum árlega. Alls bárust 72 styrkumsóknir í ár, sem er mikil fjölgun frá því í fyrra þegar 29 sóttu um styrk og 26 fengu.

Meðal styrkhafa eru Elísabet Gunnarsdóttir og Gerður G. Óskarsdóttir fyrir bók um fyrstu ár Rauðsokkahreyfingarinnar; Ingibjörg Guðrún Guðjónsdóttir fyrir bók um baðstaði og baðmenningu Íslendinga í sögulegu ljósi og Jakob F. Ásgeirsson fyrir ævisögu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.

Einnig Jón B. K. Ransu fyrir handbók um íslenska samtímalist; Jón Yngvi Jóhannsson fyrir ævisögu Gunnars Gunnarssonar; Sigríður Víðis Jónsdóttir fyrir sögu flóttakvenna á Akranesi; Viðar Þorsteinsson fyrir bók um Palestínu og Ragnheiður Gestsdóttir fyrir heimildarmynd um Ragnar Kjartansson myndlistarmann og þátttöku hans á Feneyjartvíæringnum. - bs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×