Viðskipti innlent

Breskur dómstóll þarf að úrskurða um framsal

Sigurður Einarsson neitar að koma heim.
Sigurður Einarsson neitar að koma heim.
Breskur dómstóll þarf að úrskurða um framsal Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, til Íslands að beiðni sérstaks saksóknara. Hann hefur verið eftirlýstur á vef alþjóðalögreglunnar Interpol frá því í gærkvöld.

Sérstakur saksóknari hefur reynt að fá Sigurð Einarsson til landsins vegna rannsóknar á meintum lögbrotum hans. Sigurður hefur ekki svarað kalli og í gærkvöld var hann eftirlýstur á vef Interpol fyrir fjársvik. Skráningin er með rauðum borða sem þýðir að óskað er framsals. Sérstakur saksóknari þarf að leggja fram beiðni um framsal til breskra dómstóla, samkvæmt upplýsingum fréttastofu frá Scotland Yard. Verði hún samþykkt gefur dómari þar í landi út handtökuskipun á Sigurð. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur hann ekki verið handtekinn.

Ekki hefur tekist að ná í Sigurð í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Í Fréttablaðinu í dag sagði hann: „Ég mun láta reyna á þau mannréttindi sem ég bý við hér í Bretlandi og kem þar af leiðandi ekki heim í þessar aðstæður ótilneyddur."

Sérstakur saksóknari vill ekki veita upplýsingar um framgang rannsóknarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×