Körfubolti

Morgan Lewis: Veit ekki hvor var meira hissa, ég eða varnarmaðurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij fær mikið hrós frá Morgan Lewis.
Pavel Ermolinskij fær mikið hrós frá Morgan Lewis. Mynd/Vilhlem
Morgan Lewis er í viðtali á heimasíðu KR en kappinn spilar sinn fyrsta heimaleik með KR á móti Breiðabliki í Iceland Express deild karla í DHL-Höllinni klukkan 19.15 í kvöld. Morgan Lewis hrósar mikið sendingunum frá Pavel Ermolinskij en Pavel átti fimm stoðsendingar á hann í fyrsta leiknum á móti Hamar.

Morgan Lewis var með 21 stig á 22 mínútum í fyrsta leiknum sínum á móti Hamar en leikið var í Hveragerði. Lewis hitti úr öllum níu tveggja stiga skotum sínum en klikkaði á báðum þriggja stiga skotunum.

„Ég er mjög hrifinn af þessum hóp og held að ég passi vel inn í liðið. Við erum með gott varnarlið og í háskólanum mínum var ég þekktur fyrir vörnina, eitthvað sem ég var mjög stoltur af. Ég held að við höfum náð vel saman í fyrsta leiknum okkar," segir Morgan.

„Ég elska að hlaupa upp og niður völlinn og er heppinn að koma til liðs sem er með ótrúlegan leikstjórnanda sem getur fundið hvern sem er hvenær sem er. Í fyrsta leiknum var ég stundum að keyra að körfunni og Pavel fann einhverja leið til að finna mig, í gegnum klofið eða horfandi í hina áttina, þannig að ég veit ekki hvor var meira hissa, ég eða varnarmaðurinn. Og með skotmenn eins og Brynar og Tommy verður erfitt fyrir andstæðingana að verjast okkur," segir Lewis en Pavel átti fimm stoðsendingar á hann í fyrsta leiknum.

Lewis átti tvær troðslur í leiknum á móti Hamar þar af var sú fyrri rosaleg háloftasýning þegar hann tróð viðstöðulaust með báðum höndum eftir stoðsendingu frá Pavel Ermolinskij.

„Ég gef mig aldrei minna en 100% fram í hvern leik. Vonandi sjá þeir einhverjar troðslur, eitthvað sem ég er þekktur fyrir! Með tilkomu Pavel og mín erum við hættulegt lið sóknar og varnarlega," segir Morgan í þessu skemmtilega viðtali en það má finna allt viðtalið við Morgan Lewis hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×