Handbolti

Hanna Guðrún: Við þurfum að fá meira frá Ramune

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hanna Guðrún Stefánsdóttir á ferðinni í kvöld.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir á ferðinni í kvöld. Mynd/Vilhelm

Hanna Guðrún Stefánsdóttir, fyrirliði Hauka, átti erfitt með að sætta sig við tapið á móti Val í kvöld í undanúrslitum N1 deildar kvenna. Haukar voru 18-13 yfir þegar 20 mínútur voru eftir en leikur liðsins hrundi á síðustu 20 mínútunum sem töpuðust 5-15.

„Ég er bara hundfúl. Við verðum að fara finna jafnvægið í okkar leik og fara að klára leiki. Sérstaklega svona leik sem við eigum þar til að við förum að klúðra þessu í endann," sagði Hanna.

„Við erum með sama lið og í fyrra og þurfum bara að laga hausinn á okkur. Við þurfum að hreinsa hausinn okkar og hafa trú á sjálfum okkur því við getum þetta fyllilega. Við erum með fínan mannskap og ég veit ekki hvað er búið að vera að okkur í vetur," sagði Hanna.

Ramune Pekarskyte hjálpaði ekki mikið til í leiknum í kvöld og virkaði bæði kraftlaus og áhugalítil. Hún var tekin úr umferð stærsta hluta leiksins og gerði lítið í að koma sér inn í sóknarleikinn.

„Hún er búin að vera tekin úr umferð í fimm ár þannig að þetta er ekkert nýtt fyrir okkur. Maður verður að vera á tánum og reyna að vera alltaf á hreyfingu þegar maður er tekinn úr umferð," segir Hanna en Ramune skoraði 2 mörk úr 8 skotum í leiknum.

„Mér finnst að Ramune megi skjóta meira. Hún er 190 sm á hæð en er bara í einhverju hnoði. Við þurfum að fá meira frá henni og það þýðir ekkert að vera í einhverju hnoði því hún þarf að skjóta á markið," sagði Hanna sem var markahæst í sínu liði með átta mörk.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×