Lífið

Besta plata Norðurlanda valin

Arnar Eggert Thoroddsen Tónlistargagnrýnandi Moggans hefur umsjón með valinu hér á landi.
Arnar Eggert Thoroddsen Tónlistargagnrýnandi Moggans hefur umsjón með valinu hér á landi.

Norrænu tónlistarverðlaunin 2010 verða afhent í fyrsta sinn á norsku tónlistarhátíðinni by:Larm 18. febrúar á næsta ári. 25 íslenskar plötur hafa verið tilnefndar til verðlaunanna og hefur blaðamaðurinn Arnar Eggert Thoroddsen umsjón með valinu hér á landi.

„Þetta er gert á vegum skipuleggjenda by:Larm hátíðarinnar. Hugmyndin er að búa til hliðstæðu við Mercury-verðlaunin í Bretlandi þar sem eru valdar plötur út frá innihaldi frekar en vinsældum. Menn eru að vonast til að þetta verði virt verðlaun," segir Arnar Eggert.

Fimmtíu íslenskir tónlistarspekúlantar taka þátt í valinu á bestu íslensku plötunni. Eftir að því er lokið fer Arnar Eggert með niðurstöðuna til Óslóar 13. desember þar sem hann hittir aðra norræna umsjónarmenn.

Efsta platan í valinu verður sjálfkrafa tilnefnd til verðlaunanna en saman munu Arnar og kollegar hans velja sjö plötur af þeim tólf sem komast í norræna lokavalið, sem alþjóðleg dómnefnd hefur umsjón með. „Ég þarf að fara út í ákveðna baráttu," segir Arnar Eggert og ætlar ekkert að gefa eftir í von um að koma fleiri íslenskum plötum að.

Auk Arnars stóðu fimm íslenskir tónlistarspekúlantar að valinu á tilnefndu plötunum 25. Þær komu út á tímabilinu 22. nóvember í fyrra til 22. nóvember í ár. Á meðal þeirra eru Dry Land með Bloodgroup, Terminal með Hjaltalín, Innundir skinni með Ólöfu Arnalds og Go með Jónsa.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×