Innlent

Mál þremenninganna rætt á þingflokksfundi

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir. Þingflokkur VG kemur saman í næstu viku til að ræða hjásetu þeirra og Atla Gíslasonar.
Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir. Þingflokkur VG kemur saman í næstu viku til að ræða hjásetu þeirra og Atla Gíslasonar. Mynd/GVA
Ágreiningur sem uppi er innan Vinstri grænna verður ræddur á þingflokksfundi í næstu viku. Hart hefur verið deilt innan VG eftir að þrír þingmenn flokksins sátu hjá við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins fyrr í mánuðinum.

Í Fréttablaðinu í dag segist Lilja Mósesdóttir íhuga að segja sig úr þingflokki Vinstri grænna. Hún furðar sig á viðbrögðum flokksforystunnar við hjásetu hennar, Atla Gíslasonar og Ásmundar Einars Daðasonar. Lilja telur þau hörð og ekki til sátta fallin.

Ásmundur Einar kemur til Reykjavíkur í dag. Í samtali við fréttastofu sagðist hann ekki vilja tjá sig um málið að svo stöddu. Boðað hafi verið til þingflokksfundar 5. janúar. „Þá verða þessi mál rædd," sagði Ásmundur Einar.

Ekki náðist í Atla Gíslason.

Fari svo að þremenningarnir segi sig úr þingflokknum mun ríkisstjórnin njóta stuðnings 32 þingmanna sem er minnsti mögulegi meirihluti á Alþingi.


Tengdar fréttir

Spyr hvort hjásetan hafi verið þvingunaraðgerð

Árni Þór Sigurðsson, starfandi formaður þingflokks Vinstri grænna, spyr hvort hjáseta þriggja stjórnarþingmanna við afgreiðslu fjárlaga sé þvingunaraðgerð til að knýja ríkisstjórn og meirihluta hennar til að breyta um stefnu, í nýrri greinargerð sem fréttastofa hefur undir höndum

Lilja íhugar að segja sig úr þingflokki VG

Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, furðar sig á viðbrögðum flokksforystunnar við hjásetu hennar, Atla Gíslasonar og Ásmundar Einars Daðasonar, við afgreiðslu fjárlaga fyrr í mánuðinum. Hún telur þau hörð og ekki til sátta fallin. Vísar hún til skrifa Árna Þórs Sigurðssonar, starfandi formanns þingflokksins, og Steingríms J. Sigfússonar formanns. Hún segir að svo kunni að fara að í það minnsta hún segi sig úr þingflokknum.

Atli Gísla var í fríi á Krít og Ásmundur Einar mætti illa

Viðvera Ásmundar Einars Daðasonar á fundum fjárlaganefndar þegar fjárlög voru þar til umfjöllunar var mjög lítil. Þá var Atli Gíslason í tveggja mánaða fríi á meðan fjárlög voru til umfjöllunar í þinginu. Var hann hluta tímans erlendis á Krít, en bæði Atli og Ásmundur Einar lýstu yfir óánægju með fjárlögin og sátu hjá við afgreiðslu þeirra. Þá á Ásmundur Einar hlut í búvörufyrirtæki en segist ekki sinna því samhliða þingstörfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×