Lærdómur og leiðindi Davíð Þór Jónsson skrifar 15. maí 2010 06:00 Þegar ég var strákur háðu gott og illt hatramma baráttu um yfirráðin í lífi mínu. Þessi öfl tóku þá jafnan á sig mynd skemmtilegs og leiðinlegs, en ég upplifði þessi átök sem glímu góðs og ills. Oft var skemmtilegt en stundum réð hið leiðinlega eitt ríkjum. Til dæmis voru handavinnu- og leikfimitímar ein samfelld sigurganga hins illa. Í menntaskóla var smíði ekki lengur skyldunámsgrein, en þá tóku bara saga og stærðfræði við hlutverki málaliða myrkraaflanna í lífi mínu. Einkum mistókst stagli sögulegra staðreynda um löngu dautt kónga- og keisarapakk, sem kom mér minna en ekki neitt við, gjörsamlega að kveikja í mér nokkurn minnsta neista af áhuga. Því miður get ég ekki bætt aftan við þessa setningu orðunum „hvernig sem ég reyndi", því satt best að segja þá reyndi ég ekki. Þetta var einfaldlega leiðinlegt og því ekki til neins að reyna að finnast það skemmtilegt, það var jafnlangsótt hugmynd og að hægt væri að ákveða að finnast hið illa gott. Þessa sá auðvitað stað í einkunnunum mínum. Til dæmis tókst mér bæði að falla í stærðfræði 203 og tvisvar sinnum í sögu 112, í seinna skiptið eftir að hafa skrifað langa ritgerð á prófi um baráttu Olivers Cromwells við Maríu Stúart. Þau voru reyndar ekki uppi á sömu öld. Í námi mínu í guðfræði hef ég kynnst mörgum skemmtilegum námsgreinum, t.d. ritskýringu áhugaverðra ritningarstaða, hugmyndafræðilegri samtímasögu Nýja og Gamla testamentisins og trúarlegri tjáningu allt frá Assýríu og Babýlon til Lúthers, Schleiermachers, Bultmanns og Bonhoeffers. Þess vegna kemur það mér alltaf dálítið á óvart þegar skólasystkin mín taka sig til og skrifa lokaritgerðir í kirkjufræði eða litúrgíu. Sjálfum finnst mér hlaðborð guðfræðinnar geyma svo margt miklu safaríkara en það. En ég hef líka kynnst því að maður hefur dálítið um það að segja sjálfur hvað er skemmtilegt. Jafnvel þjóðkirkjuhugtakið í skrifum Karls Sigurbjörnssonar verður mun áhugaverðara rannsóknarefni ef maður nálgast það ekki með þá fyrirframgefnu hugmynd að þetta verði ábyggilega sú mest svæfandi pæling sem maður hafi nokkru sinni lagst í. Lífið er nefnilega of stutt til að maður geti leyft sér að nálgast viðfangsefni þess sem eitthvað sem maður verði að afplána til að því ljúki. Og með því móti opnar maður líka fyrir þann möguleika að maður verði í raun einhvers vísari. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Davíð Þór Jónsson Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun
Þegar ég var strákur háðu gott og illt hatramma baráttu um yfirráðin í lífi mínu. Þessi öfl tóku þá jafnan á sig mynd skemmtilegs og leiðinlegs, en ég upplifði þessi átök sem glímu góðs og ills. Oft var skemmtilegt en stundum réð hið leiðinlega eitt ríkjum. Til dæmis voru handavinnu- og leikfimitímar ein samfelld sigurganga hins illa. Í menntaskóla var smíði ekki lengur skyldunámsgrein, en þá tóku bara saga og stærðfræði við hlutverki málaliða myrkraaflanna í lífi mínu. Einkum mistókst stagli sögulegra staðreynda um löngu dautt kónga- og keisarapakk, sem kom mér minna en ekki neitt við, gjörsamlega að kveikja í mér nokkurn minnsta neista af áhuga. Því miður get ég ekki bætt aftan við þessa setningu orðunum „hvernig sem ég reyndi", því satt best að segja þá reyndi ég ekki. Þetta var einfaldlega leiðinlegt og því ekki til neins að reyna að finnast það skemmtilegt, það var jafnlangsótt hugmynd og að hægt væri að ákveða að finnast hið illa gott. Þessa sá auðvitað stað í einkunnunum mínum. Til dæmis tókst mér bæði að falla í stærðfræði 203 og tvisvar sinnum í sögu 112, í seinna skiptið eftir að hafa skrifað langa ritgerð á prófi um baráttu Olivers Cromwells við Maríu Stúart. Þau voru reyndar ekki uppi á sömu öld. Í námi mínu í guðfræði hef ég kynnst mörgum skemmtilegum námsgreinum, t.d. ritskýringu áhugaverðra ritningarstaða, hugmyndafræðilegri samtímasögu Nýja og Gamla testamentisins og trúarlegri tjáningu allt frá Assýríu og Babýlon til Lúthers, Schleiermachers, Bultmanns og Bonhoeffers. Þess vegna kemur það mér alltaf dálítið á óvart þegar skólasystkin mín taka sig til og skrifa lokaritgerðir í kirkjufræði eða litúrgíu. Sjálfum finnst mér hlaðborð guðfræðinnar geyma svo margt miklu safaríkara en það. En ég hef líka kynnst því að maður hefur dálítið um það að segja sjálfur hvað er skemmtilegt. Jafnvel þjóðkirkjuhugtakið í skrifum Karls Sigurbjörnssonar verður mun áhugaverðara rannsóknarefni ef maður nálgast það ekki með þá fyrirframgefnu hugmynd að þetta verði ábyggilega sú mest svæfandi pæling sem maður hafi nokkru sinni lagst í. Lífið er nefnilega of stutt til að maður geti leyft sér að nálgast viðfangsefni þess sem eitthvað sem maður verði að afplána til að því ljúki. Og með því móti opnar maður líka fyrir þann möguleika að maður verði í raun einhvers vísari.