Lífið

Ætlar að stýra pólitísku og gagnrýnu Stúdentablaði

Auður Alfífa Ketilsdóttir, sem er nýráðin ritstjóri Stúdentablaðsins ætlar að sjá háskólanemum fyrir skemmtilegu lestrarefni.  Fréttablaðið/arnþór
Auður Alfífa Ketilsdóttir, sem er nýráðin ritstjóri Stúdentablaðsins ætlar að sjá háskólanemum fyrir skemmtilegu lestrarefni. Fréttablaðið/arnþór
„Ég fór í atvinnuviðtal í byrjun sumars og fékk svo að vita að ég væri ráðin fyrir stuttu,“ segir Auður Alfífa Ketilsdóttir, sem er nýráðin ritstjóri Stúdentablaðsins, en þegar Fréttablaðið náði af henni tali var hún að koma til Reykjavíkur eftir sumarlanga dvöl í Reykjarfirði á Hornströndum án síma og netsambands.

„Aðstandendur Stúdentaráðs hringdu bara í NMT-símann hans pabba til að ná í mig og færa mér þessar gleðifregnir,“ segir Fífa, eins og hún er alla jafna kölluð. Hún hlakkar til að takast á við starfið sem hún tekur formlega við þann fyrsta september næstkomandi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Fífa vinnur við fjölmiðlun en hún starfaði um tíma sem blaðamaður á dagblaðinu 24 stundum og var annar umsjónarmaður þáttarins Óþekkt á sjónvarpstöðinni NFS. Þátturinn var spjallþáttur með feminínsku ívafi sem Fífa sá um ásamt Kristínu Tómasdóttur, vinkonu sinni. „Ég hef áhuga á því að vinna í fjölmiðlum enda finnst mér gaman að geta látið í mér heyra og viðrað mínar skoðanir.“

Aðspurð hvort feminísk slag-síða verði á Stúdentablaðinu undir hennar stjórn stendur ekki á svari. „Ja, ég ætla rétt að vona það. Það hefur verið svo gegnum tíðina að ritstjórar hafa getað mótað blaðið eftir sinni hugsjón og það er nú þannig að feminíska sjónarhornið smitast út í allt sem maður gerir og segir. Það verða allavega jöfn kynjahlutföll í ritstjórninni,“ segir Fífa og bætir við hlæjandi að hún voni að blaðið taki ekki allt í einu á sig einhverja karlrembumynd. „Það væri falleinkunn fyrir mig.“

Fífa er enn sem komið er ekki búin að ráða til sín ritstjórn en fer í það á næstu vikum. „Ég er enginn allsráðandi á blaðinu og vil vinna með skemmtilegu og kúl fólki sem er með góðar hugmyndir,“ segir hún og auglýsir hér með eftir fólki innan háskólasamfélagsins til að sækja um að starfa við blaðið.

Fífa er ekki alveg búin að móta stefnu Stúdentablaðsins enn þá en það er í bígerð „Ég er með skjal í tölvunni minni sem heitir Hugmyndir fyrir stúdentablað. Það eru nokkrar línur komnar á blað,“ segir Fífa dularfull en viðurkennir að hún vilji að blaðið verði pólitískt og gagnrýnið og að háskólasamfélagið verði í brennidepli. „Þetta verður samt ekki leiðinlegt blað,“ lofar Fífa við að lokum.

alfrun@frettablaðið.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.