Lífið

The Town og fleira til

Á hvíta tjaldið Jon Hamm og Blake Lively hafa getið sér gott orð fyrir leik í sjónvarpi. Nú eru þau komin á hvíta tjaldið í The Town.
Á hvíta tjaldið Jon Hamm og Blake Lively hafa getið sér gott orð fyrir leik í sjónvarpi. Nú eru þau komin á hvíta tjaldið í The Town.

Kvikmyndin The Town hefur fengið einróma lof gagnrýnenda en leikstjóri hennar og aðalleikari er Ben Affleck. Svo langt hafa gagnrýnendur gengið að orða Affleck við Óskarinn í tveimur flokkum; sem besti leikarinn og besti leikstjórinn.

Kvikmyndin verður frumsýnd í íslenskum kvikmyndahúsum um helgina en í stuttu máli segir hún frá hópi bíræfinna bankaræningja undir stjórn Doug MacRay sem hreinsar út úr bankastofnunum með reglulegu millibili. Hópurinn á allur rætur sínar að rekja til Charlestown-hverfisins í Boston, rétt eins og flestir skúrkarnir úr þeirri borg. Brestir koma í samstarfið þegar þeir neyðast til að taka bankastarfsmanninn Claire sem gísl þegar bankarán fer úr skorðum. MacRay ákveður að fullvissa sig um að Claire þekki sig ekki aftur en sú ákvörðun mun draga dilk á eftir sér.

Auk Affleck fara sjónvarpsstjörnurnar Blake Lively og Jon Hamm með stór hlutverk í myndinni en Blake er orðin ofurstjarna eftir Gossip Girl ævintýrið. Jon Hamm ættu svo flestir að þekkja úr Mad Men. Af öðrum myndum sem verða frumsýndar um helgina má nefna Greenberg en þar má sjá Ben Stiller í alvarlegu hlutverki manns sem ákveður að gera ekki neitt og svo Furry Vengeance með Brendan Fraser. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×