Voldugur á alla kanta Óli Kristján Ármannsson skrifar 1. desember 2010 09:00 Ford Expedition Limited Á svona jeppa er maður fær í flestan sjó. Sunnudagsrúntur úr höfuðborginni austur að Urriðafossi yrði þó ekki nema til hátíðabrigða hjá fólki á meðallaunum miðað við eyðsluna. Markaðurinn/ÓKÁ Fyrst þegar tekið er af stað á Ford Expedition Limited jeppanum er tilfinningin svolítið eins og maður hafi stigið upp í vörubíl. Stærðin á bílnum venst þó ótrúlega fljótt og er hann raunar furðulipur miðað við umfang. Billinn er allur hinn þægilegasti í umgengni og í raun draumabíll, utan það eitt að hann eyðir alveg óhemjumagni af bensíni. Hafi maður nægilega djúpa vasa til að standa undir eyðslunni er maður hins vegar í góðum málum. Bíllinn er hlaðinn aukabúnaði, sóllúga er rafdrifin, rafdrifin opnun á afturhlera, rafmagn í öftustu sætaröðinni, rafmagn í sætastillingum fram í, vel hannað aðgerðastýri svo engin hætta er á að maður reki sig í hnappa og skipti um útvarpsstöð við aksturinn, leður í sætum og þar fram eftir götunum. Þá er til hæginda að í sólskyggni ökumannsmegin eru hnappar sem forrita má með fjarstýringum bílskúrs- og hliðaopnara og því er óþarfi að þvælast með slíka gripi í bílnum. Bíllinn er átta manna og rúmgóður mjög. Svo er líka hægt að leggja niður sæti þannig að jafnhátt hleðslupláss verður til inn eftir öllum bíl. Í honum er ljós leðurinnrétting og viðaráferð á mælaborði og stýri. Tólf ára dóttir undirritaðs var reyndar svo hrifin af plássinu í bílnum að hún pantaði þegar svona eintak, um leið og fjölskyldan ynni í lottóinu. Kannski ekki skrítið enda bíllinn álíka stór að innan og herbergið hennar. Jeppanum virðist treystandi í flestan akstur. Svo er hann líka með dráttarkúlu (sem smellt er á eftir hentugleikum) og ræður við flestallan drátt. Reyndar þarf kannski að kaupa sérstyrkta kúlu fyrir stærstu hestakerrurnar, en bíllinn sjálfur ræður vel við hvað sem er. Vélin í bílnum er líka 5,4 lítrar, 300 hestöfl. Það eina sem þarf að hafa í huga er að spólvörn bílsins kann í einhverjum tilvikum að taka af ökumanni ráðin, svo sem þegar ekið er upp brekku í fljúgandi hálku. En vilji maður sjálfur ráða því hvernig maður skilar aflinu óbeisluðu í dekkin smellir maður bara á hnapp í mælaborðinu og slekkur á spólvörninni. Í hnotskurn (sem er hálfasnalegt að segja um svona stóran bíl) má kalla bílinn voldugan og þægilegan. Hann er enginn kappakstursbíll, en lætur ekki að sér hæða þegar hann er kominn á skrið. Svona stórum bílum fer þó betur virðulegri akstur og verður að segjast eins og er að hvaða forstjóri sem er gæti látið sér vel líka að aka um á honum. (Og forstjóri í smærra fyrirtæki gæti tekið allan vinnustaðinn með sér í bíltúr.) Undirritaður lét sér í það minnsta vel líka og gæti vel hugsað sér að eignast eitt stykki, svona ef horft er framhjá eyðslunni. Bíllinn lætur vel að stjórn og var mestanpart í afturhjóladrifinu í reynsluakstrinum. Í hálku og á malarvegum er þó líkast til öruggast að hafa hann í aldrifinu, svona til að tryggja að ökumaður hafi fulla stjórn á ökutækinu. Í blönduðum prufuakstri þar sem trúlega reyndi meira á langkeyrsluna fram og til baka yfir Hellisheiðina fór bensíneyðsla bílsins rétt niður fyrir sautján lítra á hundraðið. Líkast til er hann í rúmum tuttugu lítrum innanbæjar, hversu mikið yfir fer svo eftir þyngd bensínfótar. Bíllinn lætur síðan vita þegar áttatíu kílómetrar eru eftir á tankinum og þarf þá að ýta á hnapp í mælaborði til að viðvörunin hverfi af upplýsingaskjá mælaborðsins. Hún dúkkar svo reglulega upp eftir því sem grynnkar á tankinum. Á vegum úti má hins vegar draga úr loftmótstöðu með því að leggja rafdrifna hliðarspeglana upp að bílnum, en þeir eru nokkuð stórir. Ósagt skal látið hvort nota má þá sem loftbremsu, en um leið er vissara að leggja þá að hliðum þegar lagt er innan um aðra í stæði, svona til að forðast hnjask. Ásett verð á bílinn er tæpar 6,3 milljónir króna. Þurfi maður á annað borð stóran bíl fær maður þarna mikið fyrir peningana, hvort sem horft er til stærðar hans, afls, notagildis eða þæginda. Mest lesið Styrktartónleikar á Hvolsvelli fyrir mikið slasaðan bónda Innlent „Hrikalegir“ biðlistar hjá golfklúbbum í höfuðborginni Innlent Kostnaður við nýja sánuklefa í Vesturbæ um 130 milljónir Innlent Kristrún á forsíðu Guardian: „Velferðarríki með ríkissjóð réttu megin við núllið“ Innlent „Mogginn er ekki flokksblað Framsóknarflokksins“ Innlent Íbúar upplifa sig svikna af Icelandair Innlent Íbúar í Garði ósáttir við uppbyggingu á þekktu flóðasvæði Innlent „Ákæruvaldið þarf að útskýra þetta“ Innlent Danir hafi sofnað á verðinum og Trump að hræra í pottinum Innlent Asískir ferðamenn virðist meðvitaðir þátttakendur í bókunarsvindli Innlent
Fyrst þegar tekið er af stað á Ford Expedition Limited jeppanum er tilfinningin svolítið eins og maður hafi stigið upp í vörubíl. Stærðin á bílnum venst þó ótrúlega fljótt og er hann raunar furðulipur miðað við umfang. Billinn er allur hinn þægilegasti í umgengni og í raun draumabíll, utan það eitt að hann eyðir alveg óhemjumagni af bensíni. Hafi maður nægilega djúpa vasa til að standa undir eyðslunni er maður hins vegar í góðum málum. Bíllinn er hlaðinn aukabúnaði, sóllúga er rafdrifin, rafdrifin opnun á afturhlera, rafmagn í öftustu sætaröðinni, rafmagn í sætastillingum fram í, vel hannað aðgerðastýri svo engin hætta er á að maður reki sig í hnappa og skipti um útvarpsstöð við aksturinn, leður í sætum og þar fram eftir götunum. Þá er til hæginda að í sólskyggni ökumannsmegin eru hnappar sem forrita má með fjarstýringum bílskúrs- og hliðaopnara og því er óþarfi að þvælast með slíka gripi í bílnum. Bíllinn er átta manna og rúmgóður mjög. Svo er líka hægt að leggja niður sæti þannig að jafnhátt hleðslupláss verður til inn eftir öllum bíl. Í honum er ljós leðurinnrétting og viðaráferð á mælaborði og stýri. Tólf ára dóttir undirritaðs var reyndar svo hrifin af plássinu í bílnum að hún pantaði þegar svona eintak, um leið og fjölskyldan ynni í lottóinu. Kannski ekki skrítið enda bíllinn álíka stór að innan og herbergið hennar. Jeppanum virðist treystandi í flestan akstur. Svo er hann líka með dráttarkúlu (sem smellt er á eftir hentugleikum) og ræður við flestallan drátt. Reyndar þarf kannski að kaupa sérstyrkta kúlu fyrir stærstu hestakerrurnar, en bíllinn sjálfur ræður vel við hvað sem er. Vélin í bílnum er líka 5,4 lítrar, 300 hestöfl. Það eina sem þarf að hafa í huga er að spólvörn bílsins kann í einhverjum tilvikum að taka af ökumanni ráðin, svo sem þegar ekið er upp brekku í fljúgandi hálku. En vilji maður sjálfur ráða því hvernig maður skilar aflinu óbeisluðu í dekkin smellir maður bara á hnapp í mælaborðinu og slekkur á spólvörninni. Í hnotskurn (sem er hálfasnalegt að segja um svona stóran bíl) má kalla bílinn voldugan og þægilegan. Hann er enginn kappakstursbíll, en lætur ekki að sér hæða þegar hann er kominn á skrið. Svona stórum bílum fer þó betur virðulegri akstur og verður að segjast eins og er að hvaða forstjóri sem er gæti látið sér vel líka að aka um á honum. (Og forstjóri í smærra fyrirtæki gæti tekið allan vinnustaðinn með sér í bíltúr.) Undirritaður lét sér í það minnsta vel líka og gæti vel hugsað sér að eignast eitt stykki, svona ef horft er framhjá eyðslunni. Bíllinn lætur vel að stjórn og var mestanpart í afturhjóladrifinu í reynsluakstrinum. Í hálku og á malarvegum er þó líkast til öruggast að hafa hann í aldrifinu, svona til að tryggja að ökumaður hafi fulla stjórn á ökutækinu. Í blönduðum prufuakstri þar sem trúlega reyndi meira á langkeyrsluna fram og til baka yfir Hellisheiðina fór bensíneyðsla bílsins rétt niður fyrir sautján lítra á hundraðið. Líkast til er hann í rúmum tuttugu lítrum innanbæjar, hversu mikið yfir fer svo eftir þyngd bensínfótar. Bíllinn lætur síðan vita þegar áttatíu kílómetrar eru eftir á tankinum og þarf þá að ýta á hnapp í mælaborði til að viðvörunin hverfi af upplýsingaskjá mælaborðsins. Hún dúkkar svo reglulega upp eftir því sem grynnkar á tankinum. Á vegum úti má hins vegar draga úr loftmótstöðu með því að leggja rafdrifna hliðarspeglana upp að bílnum, en þeir eru nokkuð stórir. Ósagt skal látið hvort nota má þá sem loftbremsu, en um leið er vissara að leggja þá að hliðum þegar lagt er innan um aðra í stæði, svona til að forðast hnjask. Ásett verð á bílinn er tæpar 6,3 milljónir króna. Þurfi maður á annað borð stóran bíl fær maður þarna mikið fyrir peningana, hvort sem horft er til stærðar hans, afls, notagildis eða þæginda.
Mest lesið Styrktartónleikar á Hvolsvelli fyrir mikið slasaðan bónda Innlent „Hrikalegir“ biðlistar hjá golfklúbbum í höfuðborginni Innlent Kostnaður við nýja sánuklefa í Vesturbæ um 130 milljónir Innlent Kristrún á forsíðu Guardian: „Velferðarríki með ríkissjóð réttu megin við núllið“ Innlent „Mogginn er ekki flokksblað Framsóknarflokksins“ Innlent Íbúar upplifa sig svikna af Icelandair Innlent Íbúar í Garði ósáttir við uppbyggingu á þekktu flóðasvæði Innlent „Ákæruvaldið þarf að útskýra þetta“ Innlent Danir hafi sofnað á verðinum og Trump að hræra í pottinum Innlent Asískir ferðamenn virðist meðvitaðir þátttakendur í bókunarsvindli Innlent