Körfubolti

Snæfelingar áfram á góðu skriði - unnu Hauka létt á Ásvöllum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sean Burton.
Sean Burton.

Snæfellingar eru áfram á toppi Iceland Express deildar karla eftir sextán stiga sigur á Haukum á Ásvöllumn í kvöld, 105-89. Snæfellingar tóku frumkvæðið strax í fyrsta leikhlutanum og litu aldrei til baka eftir það. Þetta var fimmti sigurleikur liðsins í röð og hafa Íslandsmeistararnir nú unnið 7 af fyrstu 8 leikjum sínum á tímabilinu.

Sean Burton átti stórleik hjá Snæfelli en hann hitti úr 8 af 14 þriggja stiga skotum sínum og skoraði alls 30 stig auk þess að gefa 6 stoðsendingar. Ryan Amaroso var með 25 stig og 16 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson skoraði 21 stig og Jón Ólafur Jónsson var með 17 stig og 10 fráköst.

Semaj Inge skoraði 19 stig fyrir Hauka, Gerald Robinson var með 18 stig og 11 fráköst og þá var Sævar Ingi Haraldsson nálægt þrennunni með 15 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar.

Snæfell var komið í 30-20 eftir fyrsta leikhluta og var með sextán stiga forskot í hálfleik, 61-45. Snæfellingar bættu við forskotið í þriðja leikhlutanum og voru 85-64 yfir fyrir lokaleikhlutann og því löngu orðið ljóst hvort liðið myndi vinna leikinn.

Haukar-Snæfell 89-105 (45-61)

Stig Hauka: Semaj Inge 19 (7 stoðs./5 stolnir), Gerald  Robinson 18 (11 frák./5 stoðs.), Sævar Ingi Haraldsson 15 (7 frák./7 stoðs.), Sveinn Ómar Sveinsson 8, Davíð Páll Hermannsson 8, Örn Sigurðarson 7, Haukur Óskarsson 6, Óskar Ingi Magnússon 4, Emil Barja 2/6 stolnir, Matthías Rúnarsson 2.

Stig Snæfells: Sean Burton 30 (6 frák./6 stoðs.), Ryan Amaroso 25 (16 frák.), Pálmi Freyr Sigurgeirsson 21, Jón Ólafur Jónsson 17 (10 frák.), Emil Þór Jóhannsson 4, Kristján Andrésson 3, Egill Egilsson 3, Sveinn Arnar Davíðsson 2.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×