Fastir pennar

Við Persaflóa

Þorvaldur Gylfason skrifar
Enginn er eyland. Þjóðir heimsins kaupa í síauknum mæli vörur og þjónustu hver af annarri. Að því marki eru einkum tvær leiðir færar. Önnur leiðin er að flytja inn afurðir, sem útlendingar framleiða heima hjá sér. Hin leiðin er að flytja inn aðföng, bæði vélar og verkafólk og kaupa af því vörur og þjónustu til heimabrúks eða útflutnings. Flestar þjóðir gera hvort tveggja í ýmsum hlutföllum.



Malbik í stað moldroks

Þjóðirnar við sunnanverðan Persaflóa flytja inn vinnuafl í stórum stíl. Í Katar eru heimamenn sjálfir nú aðeins um fjórðungur mannfjöldans. Þrír af hverjum fjórum íbúum landsins eru aðfluttir verkamenn frá Filippseyjum, Indlandi, Nepal og annars staðar að. Konur eru innan við fjórðungur landsmanna, þar eð farandverkamennirnir eru flestir karlar og skilja fjölskyldur sínar eftir heima.

Hvers vegna hafa þjóðirnar við Persaflóa þennan háttinn á? Það stafar af því, að olíulindir þeirra gefa af sér mikinn arð til uppbyggingar, sem heimamenn anna ekki á eigin spýtur. Þeim liggur á. Þess vegna flytja þeir inn erlent vinnuafl í svo stórum stíl. Katar var fyrir fáeinum árum marflöt eyðimörk, en líkist nú Hong Kong, þar sem glitrandi háhýsin ber við blátt hafið.





Kjaramunur

Aðflutt vinnuafl í Þýzkalandi og á Norðurlöndum býr yfirleitt við áþekk launakjör og heimamenn. Lög og reglur kveða á um það líkt og annars staðar í Evrópu. Vinnuveitendum býðst því ekki nema að litlu leyti að undirbjóða innlent starfsfólk með innflutningi ódýrs erlends vinnuafls. Við Persaflóa eru engin slík jafnréttislög við lýði. Þangað streymir því fólk víðs vegar að til að vinna við miklu lakari kjörum en tíðkast handa heimamönnum, en þó við mun skárri kjörum en aðflutta verkafólkið á að venjast heima fyrir. Innfæddir Arabar þurfa að keppa við aðflutta vinnuaflið og sætta sig ógjarnan eða alls ekki við þau kjör, sem útlendingarnir gera sér að góðu.

Sums staðar leiðir þetta ástand til atvinnuleysis meðal innfæddra, en annars staðar, svo sem í Katar, ræður ríkið heimamenn í vinnu, ef vinnu skyldi kalla frekar en dulbúið atvinnuleysi. Með þessu móti er heimamönnum greidd hlutdeild í olíuarðinum, en hún er minni en þeim ber, enda er olíuauðurinn sameign þjóðarinnar samkvæmt alþjóðasáttmálum og lögum.

Konungsfjölskyldan ræður lögum og lofum í landinu. Katar er ásamt Sádi-Arabíu harðsvíraðasta einræðisríki heims samkvæmt mælingum stjórnmálafræðinga, og mega katarskar konur þó taka bílpróf. Önnur vísbending um skárri kjör kvenna í Katar er, að konur þar eignast nú 2,4 börn að jafnaði á móti 3,4 í Sádi-Arabíu. Talan var sjö börn á hverja konu í báðum löndum 1960.





Menntadeyfð

Við aðstæður sem þessar slævist áhugi ungs fólks á að afla sér menntunar. Einkafyrirtæki kjósa heldur ódýrt vinnuafl frá öðrum löndum, bæði ófaglært verkafólk og arkitekta, iðnaðarmenn, lækna og verkfræðinga. Ríkið setur innfædda starfsmenn á launaskrá til að sporna gegn atvinnuleysi. Innan við tíundi hver karlmaður í Katar sækir háskóla borið saman við 68 prósent í Bandaríkjunum og 52 prósent hér heima. Röskur fjórðungur kvenna sækir háskóla í Katar, skólagangan er ókeypis. Flestar hverfa konurnar síðan til heimilisstarfa, án þess að skólagangan nýtist þeim eða þjóðfélaginu við vinnu utan heimilis. Landsliðið í knattspyrnu er að mestu skipað útlendingum með innlent ríkisfang.

Land, sem fer svo illa með helming innfædds vinnuafls, sættir sig við ýmsa aðra óhagkvæmni. Bensín kostar aðeins 30 krónur lítrinn, þótt hægt væri að spara ógrynni fjár með því að selja bensín heldur á heimsmarkaðsverði. Leigubílar eru sjaldséðir, því að kóngurinn á einu leigubílastöðina og leyfir ekki samkeppni. Húsnæði er niðurgreitt, og rafmagn er ókeypis.

Konungsfjölskyldan kaupir sér með þessu móti frið til að ráðskast undir leyndarhjúp með arðinn af olíulindunum. Fólkið gerir sér að góðu molana, sem hrjóta af borðum kóngafólksins. Eina umtalsverða samkeppnin í landinu er erjur innan hirðarinnar. Aðrir þora yfirleitt ekki að láta á sér kræla, hvorki heimamenn né nýbúar.





Hvað er til ráða?Ríkisstjórnin þarf að glæða áhuga ungs fólks á að afla sér fjölbreyttrar menntunar frekar en að flýja í skjól á skrifstofum ríkisins. Til þess þarf samkeppni, svo að ný fyrirtæki geti haslað sér völl við hlið olíuvinnslunnar. Konungsfjölskyldan þarf að losa tökin. Lýðræði myndi skipta sköpum.








×