Körfubolti

Grindavík áfram í Lengjubikarnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Páll Axel Vilbergsson í leik með Grindavík.
Páll Axel Vilbergsson í leik með Grindavík. Mynd/Valli

Fyrsti leikurinn í Lengjubikar karla í körfubolta fór fram í kvöld. Grindavík vann þriggja stiga sigur á Haukum, 89-86.

Leikurinn var jafn og spennandi og skiptust liðin á forystunni allan leikinn. Staðan í hálfleik var 45-44, Haukum í vil.

Grindvíkingar kláruðu leikinn á vítalínunni en Haukar fengu tækifæri til að komast yfir þegar níu sekúndur voru til leiksloka. Þá misnotaði Semaj Inge skot.

Páll Axel Vilbergsson fór svo á vítalínuna þegar fimm sekúndur voru eftir og tryggði sínum mönnum sæti í fjórðungsúrslitum keppninnar.

Páll Axel var stigahæstur Grindvíkinga með 30 stig en Andre Smith kom næstur með 27 stig. Ómar Örn Sævarsson skoraði sextán stig.

Hjá Haukum var Inge stigahæstur með 32 stig en Haukur Óskarsson skoraði ellefu og Sævar Ingi Haraldsson tíu.

Þrír leikir fara fram í keppninni á morgun og hefjast allir klukkan 19.15:

Tindastóll - Hamar

ÍR - Fjölnir

Stjarnan - KFÍ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×