Handbolti

Björgvin Páll: Það skemmtilegasta sem maður gerir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. Mynd/Stefán

„Að hitta strákana í landsliðinu og spila með þeim handbolta fyrir framan íslenska áhorfendur er það skemmtilegasta sem maður gerir," sagði landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson.

Ísland mætir í kvöld klukkan 19.30 Dönum í vináttulandsleik í Laugardalshöllinni en Björgvin sagði það ekki erfitt að gíra sig upp í leikinn eftir langt og strangt tímabil.

„Það var smá þreyta í manni á leiðinni heim en allt slíkt gleymist strax á fyrstu æfingunni. Það er svo alltaf gaman að mæta Dönum en þeir eru að mæta Sviss í undankeppni HM og þar eru margir af mínum liðsfélögum," sagði Björgvin Páll en hann varð í vor meistari með Kadetten Schaffhausen í Sviss.

„Við unnum deildina með yfirburðum, fjórtán stigum sem er met. Svo komumst við í úrslit Evrópukeppni bikarhafa og slógum út tvö þýsk lið í keppninni. Það hefur aldrei áður gerst að lið frá Sviss hefur slegið út þýskt lið í Evrópukeppninni - hvað þá tvö."

Björgvin Páll á von á því að fáar breytingar verði á leikmannahópi liðsins fyrir næsta tímabil. „Við erum nú að fara í Meistaradeild Evrópu með gott lið og það verður frábært verkefni. Það verður gaman að sjá hversu langt við komust í þeirri keppni og leikmenn eru mjög spenntir fyrir því."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×