Körfubolti

Tölfræðin undirstrikar þrjú mikilvæg atriði í leik kvöldsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverrir Þór Sverrisson átti flotta innkomu frá bekknum í síðasta leik.
Sverrir Þór Sverrisson átti flotta innkomu frá bekknum í síðasta leik. Mynd/Daníel
Þegar tölfræðin úr fyrstu fjórum leikjum Keflavíkur og Snæfells er skoðuð þá kemur í ljós að þrír tölfræðiþættir hafa sýnt mjög mikla fylgni við úrslit leikjanna.

Þetta eru stig frá bekknum, baráttan um fráköstin og þriggja stiga körfur. Það virðist nefnilega vera nóg fyrir Keflvíkinga að halda í við Snæfellsliðið í þessum tölfræðiþáttum til þess að liðið fagni sigrum í leikjum.

Keflavík og Snæfell spila í kvöld hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla í körfubolta. Leikurinn hefst klukkan 19.15 í Toyota-höllinni í Keflavík og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Það er mikill munur á framlagi varamanna Keflavíkur í sigur og tapleikjum. Keflavík fékk aðeins samtals 18 stig frá bekknum í tapleikjunum tveimur, 33 stigum færra en Snæfellsliðið. Í sigurleikjum Keflavíkur voru varamenn liðsins hinsvegar aðeins að skora tveimur stigum færra en kollegar sínir hjá Snæfelli.

Keflvíkingar skíttöpuðu líka frákastabaráttunni í tapleikjunum tveimur en Snæfellsliðið tók þá 62 prósent frákasta í boði. Keflavíkurliðið tók hinsvegar aðeins sex færri fráköst en Snæfell í sigurleikjunum sínum.

Snæfellingar treysta mikið á þriggja stiga körfurnar en liðið setti niður 26 þrista í sigurleikjunum tveimur eða 12 fleiri en Keflavíkurliðið. Í tapleikjum hittu Snæfellingar hinsvegar aðeins úr 18 af 68 þriggja skotum sínum sem er aðeins 26 prósent nýting. Keflavík skoraði aðeins tveimur þristum færra en Snæfell í leikjunum tveimur sem liðið vann.

Hvar liggur munurinn í tölfræðinni

Stig frá bekk

Sigrar Keflavíkur: Snæfell +2 (35-33)

Sigrar Snæfells: Snæfell +33 (51-18)

Frákastabaráttan

Sigrar Keflavíkur: Snæfell +6 (80-74)

Sigrar Snæfells: Snæfell +29 (74-45)

Þriggja stiga körfurnar

Sigrar Keflavíkur: Snæfell +2 (18-16)

Sigrar Snæfells: Snæfell +12 (26-14)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×