Lífið

Glaðvær jólablús

birgir örn steinarsson Hljómsveitin Króna hefur gefið út lagið Jólin koma of seint.
birgir örn steinarsson Hljómsveitin Króna hefur gefið út lagið Jólin koma of seint.

Hljómsveitin Króna gefur í dag út lagið Jólin koma of seint. Lagið samdi forsprakkinn Birgir Örn Steinarsson fyrir jólin 2003.

„Þetta voru blúsuð jól hjá mér. Þá þurfti ég mótvægi við því hvernig mér leið og samdi eitt glaðlegasta lag sem ég hef nokkurn tímann samið,“ segir Biggi.

„Þegar ég tók það upp var það heimademó og ég dreif mig í að henda því út í staðinn fyrir að vinna meira með það. Ég sá dálítið eftir því og þetta er mín leið til að biðja lagið afsökunar,“ segir hann. „Eftir að Króna var beðin um að taka þátt í X-mas tónleikunum í fyrra ákváðum við að taka lagið upp aftur. Það var tekið upp og fullunnið á þremur tímum í Hljóðrita og þetta gerði sig eiginlega bara sjálft.“

Hann segist sjálfur verða meira jólabarn með hverju árinu sem líður.

„Maður er orðinn svo meyr þegar maður er kominn með fjölskyldu og fer að mynda eigin jólahefðir. Ég hef aldrei náð að njóta jólanna almennilega fyrr en núna.“

Biggi hefur starfað sem plötusnúður undanfarin ár og er einnig að skrifa poppsögu Páls Óskars sem kemur út um þarnæstu jól. Rétt eins og Palli er Biggi bókaður langt fram í tímann við skemmtanahald, á börum, í brúðkaupum og árs­hátíðum. „Ég er bókaður allar helgar fram í mars. Þetta er rosalega skemmtilegt og þarna fæ ég mikla útrás fyrir tónlistarnördinn í mér.“

Fyrsta plata Krónu er síðan væntanleg næsta vor.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.