Lífið

Halda Harry Potter hlutverkaleik

tilbúnir í galdraslag Þeir Ólafur Sverrir og Kristján Karl vonast eftir því að sem flestir geti mætt í Harry Potter hlutverkaleikinn á föstudaginn.fréttablaðið/gva
tilbúnir í galdraslag Þeir Ólafur Sverrir og Kristján Karl vonast eftir því að sem flestir geti mætt í Harry Potter hlutverkaleikinn á föstudaginn.fréttablaðið/gva

„Við gerðum þetta í fyrra og þá vorum við þrír. Við ætlum að reyna að gera þetta aftur núna og fá vonandi fleiri til að vera með,“ segir Ólafur Sverrir Guðmundsson, en hann og vinur hans, Kristján Karl, ætla að halda Harry Potter hlutverkaleik á föstudaginn.

Hlutverkaleikir sem þessir kallast á enskri tungu „larp“ en það er stytting á orðunum „live action role-playing“. Fjölmargir hafa staðfest komu sína, en Ólafur og Kristján skráðu atburðinn á Facebook.

„Upphaflega hugsunin var sú að engir tveir mættu vera í sama hlutverki, en ef mjög margir mæta eru ekki nógu margar persónur fyrir alla svo fólk má í rauninni vera hver sem er,“ segir Ólafur. Hann bætir þó við að enginn megi vera Voldemort því hann sé of máttugur.

Hann segir þá Kristján vera búna að ákveða sín hlutverk. „Ég ætla að vera Cedric Diggory og Kristján verður sjálfur Harry Potter.“

Þeir félagarnir héldu svipaðan hlutverkaleik í fyrra. „Við vorum með Pokémon-þema síðast. Þá vorum við samt bara þrír,“ segir Ólafur en bætir við að það hafi heppnast stórkostlega og því langi þá að endurtaka leikinn.

„Við ætluðum að útbúa fullt af sprotum sem fólk gæti fengið hjá okkur, en ég efast um að við náum að gera mjög marga sprota. Það er líka bara hægt að nota greinar eða eitthvað,“ segir Ólafur.

Hlutverkaleikurinn fer fram á föstudaginn klukkan átta og verður haldinn fyrir aftan Miðbæ á Háaleitisbrautinni.

„Við hvetjum alla til að mæta. Við ætlum allavega bara að fíflast og fá okkur bjór,“ segir Ólafur.- ka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.