Lífið

Linda Pé dómari í fyrstu fegurðarkeppni homma

Magnús Guðbergur Jónsson keppti sjálfur í Mr. Gay Europe og Mr. Gay World með ágætis árangri. Hann hefur nú keypt réttinn að þessari keppni hér á landi.
Magnús Guðbergur Jónsson keppti sjálfur í Mr. Gay Europe og Mr. Gay World með ágætis árangri. Hann hefur nú keypt réttinn að þessari keppni hér á landi.

„Þetta er byggt upp eins og fyrirsætukeppni nema hvað að undirfatasýning og annað slíkt er klippt út," segir Magnús Guðbergur Jónsson sem stendur fyrir fyrstu Hr. Hinsegin-keppninni á Íslandi.

Sigurvegarinn verður krýndur við hátíðlega athöfn í Þjóðleikhúskjallaranum þann 5. júní næstkomandi en þegar hafa átta keppendur skráð sig til leiks.

Verðlaunin eru ekki af verri endanum, þriggja daga hótelgisting á einu glæsilegasta hóteli New York-borgar, árskort í ræktina svo ekki sé minnst á titilinn sjálfan sem gefur viðkomandi rétt til að keppa fyrir hönd Íslands í Mr. Gay Europe í Genf og Mr. Gay World á Filipseyjum á næsta ári.



Ef allt gengur að óskum verður Linda Pétursdóttir meðal dómnefndarmeðlima.

Magnús keypti réttinn að Mr. Gay-keppninni en hann var sjálfur þátttakandi í Mr. Gay World fyrir ári síðan. Þar varð Magnús fyrir slíkri uppljómun og hughrifum að honum fannst hann verða að koma skilaboðum keppninnar á framfæri.

„Ég áttaði mig þá, þegar ég heyrði sögurnar sem hinir höfðu að segja, hvað samkynhneigðir á Norðurlöndunum hafa það gott. Við tökum stundum ekki eftir því hvað er að gerast í kringum okkur í þessum málum og það er hálfgerð skömm að þessar þjóðir skuli ekki hafa þrýst á önnur lönd að bæta úr þessu," segir Magnús. Keppnin beini því sjónum sínum að baráttu minnihlutahópa og þá sérstaklega homma og lesbía.

Magnús segir það sér mikið kappsmál að réttur aðili fari fyrir hönd Íslands, að viðkomandi geti frætt aðra um Ísland, stöðuna hér á landi og miðlað af reynslu og þekkingu um jafnrétti og velferð. Magnús hefur fengið til liðs við sig glæsilega dómnefnd en ef allt gengur að óskum munu Linda Pétursdóttir, fyrrum alheimsfegurðardrottning og athafnakona, Sigríður Klingenberg, spákona, Friðrik Ómar, Hafsteinn Þórólfsson og Jarl Hökedal sitja í dómnefndinni.

„Jarl kemur frá Mr. Gay World og er sá sem gefur hótelgistinguna í New York," segir Magnús en að öllum líkindum verður Heiðar Jónsson kynnir.

freyrgigja@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×