Körfubolti

Nýi Grindavíkur-kaninn lofaði góðu á fyrstu æfingu - frumsýning í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Jónas Guðfinnsson, þjálfari Grindavíkur, spilaði í síðasta leik með liðinu.
Helgi Jónas Guðfinnsson, þjálfari Grindavíkur, spilaði í síðasta leik með liðinu.
Bandaríkjamaðurinn Jeremy Kelly er lentur á Íslandi og ætlar að taka að sér leikstjórnendahlutverkið hjá Grindvíkingum. Kelly tekur við stöðu Andre Smith sem óskaði eftir því að fara frá liðinu sem vann fyrstu fimm leikina með hann innanborðs.

„Jeremy lenti snemma í gærmorgun og var mættur á sína fyrstu æfingu kl. 9 og leist mönnum ansi vel á hann og sérstaklega ef mið var tekið af stutti viðveru hans á klakanum eftir langt og strangt ferðalag.  Hann lofar því góðu til að byrja með en höfum hugfast orðatiltækið góða; Lofa skal lamb að hausti...," segir í fréttum Jeremy Kelly á heimasíðu Grindvíkinga.

Jeremy Kelly var með 7,5 stig og 3,6 stoðsendingar að meðaltali í 116 leikjum í D-deild NBA-deildarinnar sem er þóunardeild NBA þar sem leikmenn reyna að sýna sig til þess að fá tækifæri í NBA. Hann lék einnig á sínum tíma í frönsku úrvalsdeildinni.

Jeremy er um 192 sm að hæð eða mun hærri en fyrirrennari sinn Andre Smith sem var rétt rúmir 180 sm. Smith var með 21,6 stig og 7,0 stoðsendingar að meðaltali í leik í fimm leikjum sínum í Iceland Express deildinni.

Fyrsti leikur Jeremy Kelly verður á móti Stjörnunni í kvöld en bæði liðin töpuðu sínum síðasta leik í deildinni og ætla því örugglega að gera allt til þess að komast aftur á sigurbraut í Röstinni í Grindavík í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×