Lífið

Sápukúlur hjá Jónsa

Jónsi og hljómsveit hans bregða á leik baksviðs. Sápukúlur verða blásnar á tónleikunum í Höllinni.
Jónsi og hljómsveit hans bregða á leik baksviðs. Sápukúlur verða blásnar á tónleikunum í Höllinni.

Aðdáendur Jóns Þórs Birgissonar, Jónsa, ætla að blása sápukúlur á tónleikum hans í Laugardalshöll 29. desember. Uppákoman verður í laginu Around Us af fyrstu sólóplötu hans Go.

Einn af þeim 192 erlendu aðdáendum Jónsa sem ætla á tónleikana tilkynnti þetta á Facebook-síðu Jónsa. „Stóra planið okkar er að á meðan lagið Around Us hljómar blásum við helling af sápukúlum í loftið, þið vitið eins og þegar við vorum krakkar. Sjáumst öll á tónleikunum með sápukúlur í kringum okkur."

Aðrir hafa rætt um að mæta með skrítna dýrahatta á tónleikana til að skapa skemmtilega stemningu. Stutt er síðan suður-kóreskir aðdáendur Jónsa tóku höndum saman og fylltu sviðið af skutlum í einu laginu og vilja aðdáendurnir í Höllinni ekki vera minni menn.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá munu 192 útlendingar frá 21 landi fljúga hingað til lands gagngert til að fylgjast með tónleikunum. Flestir koma frá Bandaríkjunum og Bretlandi, eða 98 talsins, 34 koma frá Frakklandi og Þýskalandi og tíu frá Japan. Aðrir aðdáendur Jónsa koma meðal annars frá Rússlandi, Ástralíu, Mexíkó og Ítalíu. Tónleikarnir verða þeir síðustu á risastórri tónleikaferð Jónsa um heiminn. Lúðrakvintettinn Brassgat í bala, með Samúel J. Samúelsson í fararbroddi, hitar upp. Enn eru til miðar í stæði.- fb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.