Körfubolti

Friðrik: Við lifðum á vörn í þessum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel

Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, var ánægður með varnarleik sinna manna í 17 stiga sigri á toppliði KR í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld.

Sóknarleikurinn okkar var aldrei fallegur hjá okkur í þessum leik og við náðum aldrei flæði en við lifðum á vörn í þessum leik og það er nýbreytni í Grindavík," sagði Friðrik Ragnarsson eftir leikinn.

Grindavíkurliðið hefur gengið í gegnum mikið af meiðslum í vetur en nú er farið að sjá fyrir endann á því.

„Ég held að breiddin hafi aukist í liðinu í öllum þessum meiðslum sem við höfum átt í. Við erum með unga stráka eins og Ólaf Ólafsson sem var að spila þennan leik eins og margreyndur meistaraflokksmaður. Hann er klárlega orðinn verulega góður leikmaður," sagði Friðrik en Ólafur var með 11 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar í kvöld.

KR-ingar skoruðu aðeins 67 stig í kvöld og skotnýtingin þeirra var aðeins 30,7 prósent (24 af 78).

„Við ætlum að reyna að vinna út frá vörninni í þessum leik því við vorum ánægðir með vörnina," sagði Friðrik og hann hefur ekkert alltof miklar áhyggjur af stöðu liðsins í stigatöflunni.

„Við getum ekki að verið að hafa áhyggjur af því sem búið er. Nú er næst bikarinn á móti hörkuliði ÍR sem hefur unnið okkur tvisvar undir sömu kringumstæðum. Við berum fulla virðingu fyrir þeim og mætum eins og grenjandi ljón til leiks á mánudaginn," sagði Friðrik að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×