Lífið

Tilhlökkun og ótti í Brooklyn

Ingvar Geirsson Ingvar spilar á tónlistarhátíðinni Brooklyn Soul Festival í New York á morgun. Fréttablaðið/stefán
Ingvar Geirsson Ingvar spilar á tónlistarhátíðinni Brooklyn Soul Festival í New York á morgun. Fréttablaðið/stefán

„Þetta er bæði tilhlökkun og svolítill ótti,“ segir Ingvar Geirsson, eigandi plötubúðarinnar Lucky Records. Hann opnar tónlistarhátíðina Brooklyn Soul Festival í New York á morgun sem plötusnúðurinn DJ Lucky. „Þetta er svolítil pressa en þetta verður bara gaman.“

Ingvar ætlar á hátíðinni að spila sálar- og fönkplötur úr 7 tommu safni sínu. Hátíðin stendur yfir í tvo daga og þar koma fram fjórir plötusnúðar og sex kunnir listamenn úr heimi bandarískrar sálar- og fönktónlistar.

Ingvar var fenginn til að spila á hátíðinni eftir að hann hitti Richard Lewis, einn af skipuleggjendum hennar, á fönkhátíð Samúels J. Samúelssonar í Reykjavík í sumar. „Ég ætlaði fyrst að fara út og kíkja á hátíðina en svo þegar hann frétti af því bað hann mig um að spila,“ segir Ingvar.

Samúel verður einmitt með honum í New York en ætlar þó ekki að stíga á svið. Hann ætlar að nýta ferðina til að næla sér í sambönd fyrir næstu fönkhátíð. Ingvar ætlar einnig að reyna að koma sér í samband við erlenda útgefendur vegna Lucky Records. Saman hyggja þeir síðan á mánaðarleg fönk- og sálarkvöld í Reykavík þar sem þessar tónlistarstefnur fá að njóta sín.

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.