Körfubolti

Bíblíulesturinn kveikti heldur betur í Ara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ari Gylfason.
Ari Gylfason. Mynd/Heimasíða KFÍ
Ari Gylfason átti frábæra frumraun með KFÍ í Lengjubikarnum í gær en hann skoraði þá 25 stig á 29 mínútum í sínum fyrsta opinbera leik með Ísafjarðarliðinu og hjálpaði KFÍ-liðinu að vinna óvæntan tólf stiga sigur á Stjörnunni í Garðabæ, 108-96.

Ari hitti úr 8 af 10 skotum sínum þar af 6 af 8 þriggja stiga skotum sínum og KFÍ-liðið vann þær 29 mínútur sem hann spilaði með 19 stigum. Ari náði greinilega vel saman við leikstjórnandann Craig Schoen sem var með 14 stig og 9 stoðsendingar í leiknum.

Ari var í viðtali við heimasíðu KFÍ eftir leikinn. „Það voru ekki margir sem töldu okkur tilbúna í þetta verkefni en við ákváðum að berjast sem ein heild, eða eins og ég segi sem fjölskylda" sagði Ari Gylfason en það var óvenjulegur undirbúningur sem átti mikinn þátt í hversu heitur hann varð í Ásgarði í gær.

„Það sem hjálpaði mér var að lesa upphátt úr biblíunni í 40 mínútur" sagði Ari í viðtali við KFÍ-síðuna og segir jafnframt að hann ætli sér að endurtaka lesturinn fyrir næsta leik sem verður á móti KR í átta liða úrslitum keppninnar á sunnudagskvöldið.

Ari endaði tímabilið í fyrra hjá Þór Þorlákshöfn eftir að hafa fengið lítil tækifæri hjá FSu en hann er frá Selfossi og er sonur Gylfa Þorkelssonar sem lék á árunum áður með Val, ÍR og Keflavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×