Sport

Juan Antonio Samaranch er allur 89 ára gamall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Antonio Samaranch með Jacques Rogge, núverandi forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar.
Juan Antonio Samaranch með Jacques Rogge, núverandi forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar. Mynd/AFP

Juan Antonio Samaranch, fyrrverandi forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar og sérstakur heiðursforseti Ólympíuhreyfingarinnar, lést í dag á spítala í Barelona. Banameinið var hjartaáfall. Hann var 89 ára gamall.

Juan Antonio Samaranch hefur verið heiðursforseti Alþjóðaólympíunefndarinnar síðan að hann hætti sem forseti árið 2001. Hann hafði verið kosinn forseti 21 ári áður. Jacques Rogge, núverandi forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, tók við af Samaranch.

Það hefur aðeins einn maður verið lengur forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar en Samaranch. Sá var stofnandi hennar Pierre de Coubertin sem var forseti hennar í 29 ár.

Samaranch hafði átti við heilsuvandamál að stríða síðan að hann hætti sem forseti og þetta var ekki í fyrsta skiptið sem hann hafði verið lagður inn á spítala vegna hjartavandamála.

Juan Antonio Samaranch var einn allra valdamesti maður íþróttahreyfingarinnar á sínum tíma og hápunktur í valdtíð hans var þegar Ólympíuleikarnir fóru fram í heimaborg hans Barcelona árið 1992.

Undir stjórn Samaranch óx ólympíuhreyfingin og dafnaði.

Juan Antonio Samaranch fékk sæti í Ólympíunefnd Spánverja árið 1966 og var síðan kjörinn forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar árið 1980. Hann keppti á hjólaskautum á sínum íþróttaferli og varð einu sinni heimsmeistari í sinni grein.

Samaranch heimsótti Ísland nokkrum sinnum, m.a. var hann við setningu Smáþjóðaleikanna hér á landi árið 1997.

ÍSÍ hefur sent Alþjóðaólympíuhreyfingunni og Ólympíunefnd Spánar samúðarkveðju vegna fráfalls Juan Antonio Samaranch og beðið samtökin fyrir kveðju til fjölskyldu hans frá íslenskri íþróttahreyfingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×