Sport

Bjarki og Sveinbjörg urðu Íslandsmeistarar í fjölþraut

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarki Gíslason úr UFA.
Bjarki Gíslason úr UFA. Mynd/Anton
Bjarki Gíslason úr UFA og Sveinbjörg Zophoníasdóttir úr USÚ urðu um helgina Íslandsmeistarar í fjölþrautum. Þetta er í fyrsta skiptið sem þau vinna titilinn.

Bjarki Gíslason er 20 ára gamall og keppir fyrir Ungmennafélag Akureyrar. Hann bætti sinn besta árangur og stórbætti Akureyrarmetið frá 2008 en það átti hann sjálfur. Bjarki náði auk þess lágmarkinu fyrir Norðurlandamótið í fjölþrautum sem fram fer í Danmörku í lok júní.

Bjarki fékk 6492 stig og vann mjög öruggan sigur. Sölvi Guðmundsson úr Breiðabliki varð í 2. sætinu með 5791 stig og í þriðja sæti varð Elvar Örn Sigurðsson úr UFA með 4317 stig.

Sveinbjörg Zophoníasdóttir er 18 ára gömul og keppir fyrir Ungmennasambandið Úlfljótur frá Höfn í Hornafirði. Sveinbjörg hafði betur eftir hörkukeppni við Stefaníu Valdimarsdóttur úr Breiðabliki.

Sveinbjörg fékk 4716 stig en Stefanía sem var með forustuna eftir fyrri daginn fékk að lokum 4581 stig. Fjóla Signý Hannesdóttir úr HSK/UMF.Selfoss varð í 3. sætinu.

Þetta er persónulegt met hjá Sveinbjörgu og ellefti besti árangur í sjöþraut frá upphafi hér á landi. Hún bætti sig í öllum greinunum í sjöþrautinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×