Kosið um ábyrgð Ólafur Stephensen skrifar 29. maí 2010 06:00 Landsmenn ganga í dag að kjörborðinu og velja sveitarstjórn í sínu sveitarfélagi. Það hvernig fólk ráðstafar atkvæði sínu hefur áhrif á nánasta umhverfi fólks, á borð við götur, útivistarsvæði og íþróttaaðstöðu og þá félagslegu þjónustu sem stendur fólki næst, til dæmis grunnskóla, leikskóla og þjónustu við aldraða. Það skiptir máli að fólk kjósi og líka hvernig atkvæðinu er varið. Nú eru erfiðir tímar hjá flestum sveitarfélögum. Tekjur hafa dregizt saman eftir efnahagshrunið en ýmis kostnaður hækkað, til dæmis vegna aðstoðar við atvinnulausa. Niðurskurður í rekstri er víðast hvar óhjákvæmilegur. Kjósendur ættu að gjalda varhug við stjórnmálamönnum, sem þrátt fyrir þetta lofa nýjum útgjöldum og framkvæmdum. Þeir lofa peningum, sem eru ekki til. Eina leiðin til að standa við slík kosningaloforð er að taka lán eða hækka skatta. Sveitarfélögin eru flest skuldsett upp í rjáfur nú þegar. Ríkisstjórnin hefur séð um að skattbyrðin er orðin meira en nógu þung, þótt sveitarfélögin bæti ekki nýjum byrðum við. Þeir sem verðskulda atkvæðin okkar í dag eru stjórnmálamenn sem eru reiðubúnir að axla þá ábyrgð sem í því felst að stjórna sveitarfélagi og taka erfiðar ákvarðanir í því skyni að ná endum saman. Til þess verður fólk að hafa útfærða stefnu og skýra sýn á hvað skiptir mestu máli; flest eða öll sveitarfélög munu þurfa að forgangsraða verkefnum og leggja mesta áherzlu á grunnþjónustuna. Tími gæluverkefnanna verður ekki næstu árin. Kosningarnar snúast um ábyrgð í fleiri en einum skilningi. Margir eru óánægðir með gömlu fjórflokkana og reiðubúnir að refsa þeim í kosningunum. Fulltrúar í sveitarstjórnum geta að sjálfsögðu þurft að axla ábyrgð á því, sem flokksmenn þeirra klúðruðu á landsvísu. Skoðanakannanir Fréttablaðsins og Stöðvar 2 benda til að meirihlutar í mörgum sveitarfélögum séu í fallhættu eða standi tæpt. Þeir sem vilja draga fulltrúa gömlu flokkanna til ábyrgðar verða hins vegar að vera vissir um að þeir sem bjóða fram undir nýjum merkjum og framandlegum listabókstöfum séu líka færir um að taka á sig mikla ábyrgð. Eru framboðin sem til er stofnað í nafni gleði og gríns reiðubúin til þess? Tökum dæmi: Þegar vakin er athygli á stefnu- og reynsluleysi Bezta flokksins, svara forsvarsmenn hans því til að hjá Reykjavíkurborg starfi þrautreynt fólk, embættismenn með mikla þekkingu og reynslu af málefnum borgarinnar. Það er rétt, svo langt sem það nær. En lýðræðislega kjörnir fulltrúar geta ekki afhent embættismönnum stjórnina. Enginn kaus embættismennina og enginn getur dregið þá til ábyrgðar í næstu kosningum. Til þess eru lýðræðislegar kosningar; að við getum að minnsta kosti á fjögurra ára fresti látið þá axla ábyrgð, sem klúðruðu málum og verðlaunað þá sem hafa staðið sig vel eða eru líklegir til að vera verðugir þess trausts sem við sýnum þeim. Rétt er að hafa það í huga í kjörklefanum í dag. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun Jólaheimsóknir á aðventunni Guðrún Karls Helgudóttir Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Andrésdóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Vondar hugmyndir í verðbólgu Hildur Sverrisdóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun
Landsmenn ganga í dag að kjörborðinu og velja sveitarstjórn í sínu sveitarfélagi. Það hvernig fólk ráðstafar atkvæði sínu hefur áhrif á nánasta umhverfi fólks, á borð við götur, útivistarsvæði og íþróttaaðstöðu og þá félagslegu þjónustu sem stendur fólki næst, til dæmis grunnskóla, leikskóla og þjónustu við aldraða. Það skiptir máli að fólk kjósi og líka hvernig atkvæðinu er varið. Nú eru erfiðir tímar hjá flestum sveitarfélögum. Tekjur hafa dregizt saman eftir efnahagshrunið en ýmis kostnaður hækkað, til dæmis vegna aðstoðar við atvinnulausa. Niðurskurður í rekstri er víðast hvar óhjákvæmilegur. Kjósendur ættu að gjalda varhug við stjórnmálamönnum, sem þrátt fyrir þetta lofa nýjum útgjöldum og framkvæmdum. Þeir lofa peningum, sem eru ekki til. Eina leiðin til að standa við slík kosningaloforð er að taka lán eða hækka skatta. Sveitarfélögin eru flest skuldsett upp í rjáfur nú þegar. Ríkisstjórnin hefur séð um að skattbyrðin er orðin meira en nógu þung, þótt sveitarfélögin bæti ekki nýjum byrðum við. Þeir sem verðskulda atkvæðin okkar í dag eru stjórnmálamenn sem eru reiðubúnir að axla þá ábyrgð sem í því felst að stjórna sveitarfélagi og taka erfiðar ákvarðanir í því skyni að ná endum saman. Til þess verður fólk að hafa útfærða stefnu og skýra sýn á hvað skiptir mestu máli; flest eða öll sveitarfélög munu þurfa að forgangsraða verkefnum og leggja mesta áherzlu á grunnþjónustuna. Tími gæluverkefnanna verður ekki næstu árin. Kosningarnar snúast um ábyrgð í fleiri en einum skilningi. Margir eru óánægðir með gömlu fjórflokkana og reiðubúnir að refsa þeim í kosningunum. Fulltrúar í sveitarstjórnum geta að sjálfsögðu þurft að axla ábyrgð á því, sem flokksmenn þeirra klúðruðu á landsvísu. Skoðanakannanir Fréttablaðsins og Stöðvar 2 benda til að meirihlutar í mörgum sveitarfélögum séu í fallhættu eða standi tæpt. Þeir sem vilja draga fulltrúa gömlu flokkanna til ábyrgðar verða hins vegar að vera vissir um að þeir sem bjóða fram undir nýjum merkjum og framandlegum listabókstöfum séu líka færir um að taka á sig mikla ábyrgð. Eru framboðin sem til er stofnað í nafni gleði og gríns reiðubúin til þess? Tökum dæmi: Þegar vakin er athygli á stefnu- og reynsluleysi Bezta flokksins, svara forsvarsmenn hans því til að hjá Reykjavíkurborg starfi þrautreynt fólk, embættismenn með mikla þekkingu og reynslu af málefnum borgarinnar. Það er rétt, svo langt sem það nær. En lýðræðislega kjörnir fulltrúar geta ekki afhent embættismönnum stjórnina. Enginn kaus embættismennina og enginn getur dregið þá til ábyrgðar í næstu kosningum. Til þess eru lýðræðislegar kosningar; að við getum að minnsta kosti á fjögurra ára fresti látið þá axla ábyrgð, sem klúðruðu málum og verðlaunað þá sem hafa staðið sig vel eða eru líklegir til að vera verðugir þess trausts sem við sýnum þeim. Rétt er að hafa það í huga í kjörklefanum í dag.