Lífið

Bjarnfreðarson orðin næsttekjuhæst

Kvikmyndin Bjarnfreðarson er næsttekjuhæsta mynd Íslandssögunnar á eftir Mýrinni.
Kvikmyndin Bjarnfreðarson er næsttekjuhæsta mynd Íslandssögunnar á eftir Mýrinni.

Kvikmyndin Bjarnfreðarson er næsttekjuhæsta mynd Íslandssögunnar samkvæmt tölum frá Smáís, samtökum myndrétthafa. Alls hefur myndin halað inn um 78 milljónir króna síðan hún var frumsýnd 26. desember í fyrra.

Þar með slær hún út mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Engla alheimsins, sem náði inn tæpum 68 milljónum árið 2000. Ef miðað er við áhorfendafjölda er Bjarnfreðarson aftur á móti í þriðja sæti á eftir Englum alheimsins. Um 67 þúsund manns fóru á Bjarnfreðarson í bíó á meðan 82 þúsund manns sáu Engla alheimsins.

„Þær eru ekki margar þessar íslensku bombur sem koma í bíó," segir Snæbjörn Steingrímsson hjá Smáís um árangur Bjarnfreðarson. „Meðaltalið á þessar íslensku myndir í ár var gott. Þetta eru farnar að vera flottar myndir og flóran virðist vera miklu vandaðri en áður."

Mýrin sem var frumsýnd 2006 er bæði tekju- og aðsóknarmesta mynd Íslands síðan opinberar mælingar hófust. Hún halaði inn tæpa 91 milljón króna og laðaði til sín um 84 þúsund áhorfendur.

Bjarnfreðarson er í fjórða sæti yfir tekju- og aðsóknarmestu myndir þessa árs. Skammt undan henni er önnur íslensk mynd, Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið. Tekjur hennar nema tæpum 39 milljónum króna og tæplega 38 þúsund manns hafa borgað sig inn á hana.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.