Handbolti

Íslensku stelpurnar eru ekki einu nýliðarnir á EM - dregið á laugardag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rut Jónsdóttir í leik á móti Frökkum.
Rut Jónsdóttir í leik á móti Frökkum. Mynd/Stefán
Það varð ljóst um helgina hvaða sextán þjóðir verða í lokakeppni Evrópumóts kvennalandsliða í handbolta sem fer fram í Danmörku og Noregi 7. til 19. desember á þessu ári.

Íslenska kvennalandsliðið náði eins og kunnugt er sögulegum áfanga um helgina þegar stelpurnar tryggðu sér sæti í úrslitakeppni stórmóts í fyrsta sinn. Liðið endaði í 2. sæti í sínum riðli á eftir geysisterku liði Frakklands.

Íslensku stelpurnar eru ekki einu nýliðarnir á EM því Svartfjallaland var einnig að komast í lokakeppni EM í fyrsta sinn. Allar aðrar þjóðir í keppninni hafa mun meiri reynslu eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Það verður dregið í riðla í Óðinsvéum laugardaginn 5. júní og mun drátturinn fara fram í hálfleik á æfingalandsleik gestgjafana Dana og Norðmanna. Það verður dregið í fjóra fjögurra liða riðla þar sem þrjú efstu liðin komast síðan áfram í milliriðil.

Þjóðir í úrslitakeppni EM kvenna í handbolta 2010:

Danmörk (9 EM-keppnin)

Noregur (9)

Ungverjaland (9)

Frakkland (6)

Þýskaland (9)

Spánn (6)

Svartfjallaland (Nýliði)

Rússland (9)

Króatía (6)

Rúmenía (8)

Úkraína (9)

Ísland (Nýliði)

Slóvenía (4)

Holland (4)

Svíþjóð (7)

Serbía (3)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×