Lífið

Fyrstu einleikstónleikarnir í fjögur ár

jóhann jóhannsson Fyrstu sólótónleikarnir hans í fjögur ár verða haldnir í Hallgrímskirkju í kvöld.
jóhann jóhannsson Fyrstu sólótónleikarnir hans í fjögur ár verða haldnir í Hallgrímskirkju í kvöld.

„Það er búið að standa lengi til að spila á tónleikum á Íslandi. Það er kominn tími til og ég er mjög spenntur,“ segir tónlistarmaðurinn Jóhann Jóhannsson.

Fyrstu sólótónleikar hans í fjögur ár verða haldnir í Hallgrímskirkju í kvöld í samstarfi við 12 Tóna og kvikmyndahátíðina RIFF. Þar ætlar hann, ásamt fimm manna hljómsveit, að spila lög af þremur plötum sínum: Englabörn, Fordlandia og IBM 1401, a User"s Manual. Einnig verður spilað töluvert af óútgefnu efni. Myndefni sem Magnús Helgason hefur gert sérstaklega fyrir tónlist Jóhanns fær einnig að njóta sín á tónleikunum.

„Það er æðislegt að geta komið fram á svona veglegum tónleikum í tengslum við kvikmyndahátíðina,“ segir Jóhann.

„Það er gaman að geta gert þetta uppi í kirkju og með þessu myndefni frá Magnúsi. Hann hefur ferðast um heiminn með þessar myndir en ekki gert þetta áður á Íslandi. Þetta eru mjög fallegar myndir sem Magnús hefur búið til.“

Jóhann hefur tvisvar áður spilað í Hallgrímskirkju, eða 2003 og 2004. Fyrst með Caput-hópnum og síðan með strengjakvartett og Matthíasi Hemstock. „Hljómurinn hentar tónlistinni minni rosalega vel og svo er ég mikill aðdáandi þessarar kirkju.“

Jóhann hefur verið á tónleikaferðalagi um Evrópu að undanförnu, þar á meðal í Lissabon og í Berlín, sem hefur gengið mjög vel. Hann er einnig að ljúka við nýja plötu sem kemur út í maí, auk þess sem hann er að vinna að kvikmyndatónlist við dönsku myndina The Good Life. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.