Handbolti

Haraldur: Dómararnir eiga þennan sigur Vals skuldlaust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haraldur Þorvarðarson er hér tekinn föstum tökum. Mynd/Anton
Haraldur Þorvarðarson er hér tekinn föstum tökum. Mynd/Anton
Haraldur Þorvarðarson átti góðan leik fyrir Fram í kvöld og nýtti öll sex skotin sín í leiknum. Það dugði þó ekki til því Fram þurfti að sætta sig við 29-28 tap á móti Val í Vodafone-höllinni.

„Þetta var hörkuleikur. Við byrjuðum illa fyrsta korterið en svo komum við til baka og fundum okkar leik. Við náðum ágætis forskoti en svo náðu þeir okkur undir lokin," sagði Haraldur en hann sem og aðrir Framarar voru mjög ósáttir með þátt dómaranna undir lokin.

„Við erum með boltann þegar það er lítið eftir. Það er brotið á okkur en dómararinir sleppa dómnum, þeir fá hraðaupphlaupsmark og leikurinn er búinn. Dómararnir eiga þennan sigur Vals skuldlaust að mínu mati," sagði Haraldur harðorður.

„Við vissum að við myndum mæta allt öðru Valsliði en fyrr í vetur. Þeir eru búnir að sýna það með því að vinna þrjá leiki í röð. Þeir eru með hörkulið enda væri annað fáránlegt miðið við allan þennan mannskap," sagði Haraldur en hann komst ekki yfir ákvörðun dómaranna í lokin.

„Við hefðum unnið leikinn og allavegna náð jafntefli ef að dómararnir hefðu ekki gripið inn í," sagði Haraldur svekktur í leikslok.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×