Aníta segir að Mamma mia! hafi þó ekki haft áhrif á val á brúðkaupsstað. „Nei, en við ætlum að fylgja fallegum sið þar sem brúðguminn og gestirnir koma og sækja brúðina heim til hennar, eða í villuna sem hún er búin að leigja," segir Aníta glettin og heldur áfram: „Við hendum þarna inn tveimur til þremur hljóðfæraleikurum og göngum öll saman á staðinn þar sem athöfnin fer fram."
Aníta segir athöfnina annars eiga að vera persónulega og hlýja. „Við ætlum að skiptast á loforðum fyrir framan það fólk sem skiptir okkur máli, nánustu fjölskyldu og dásamlega vini," útskýrir Aníta og bætir við að þau ætli að sameina tvo sterka og fallega menningarheima.
„Svo ætlum við að flytja út íslenska stórprestinn Pálma Matthíasson sem ætlar að gefa okkur saman á grískri eyju. Þetta er táknrænt fyrir hvernig við viljum vera saman, stolt af því hvaðan við komum og að það hafi gert okkur að því sem við erum í dag og svo fáum við líka að erfa allt það stórkostlega frá hinum," upplýsir Aníta sem segist með þessu vera að gera Dean að heiðurs-Íslendingi.
„Og í staðinn fæ ég að tilheyra fólkinu sem bjó til vestræna siðmenningu."
Aníta verður í brúðarkjól frá breska hönnuðinum Jenny Packham. En hún hefur komist í fjölmiðla á Íslandi fyrir að ganga í íslenskri hönnun. Ætlar hún að vera með einhverja íslenska hönnun í brúðkaupinu?
„Ég er mikill aðdáandi íslenskrar hönnunar og við eigum mikið af hæfileikaríku fólki. Ég er að fara að skoða hönnuði fyrir brúðarmeyjakjólana, það er frábær hugmynd að sjá hvort þeir gætu ekki komið frá íslenskum hönnuði. Það væri fallegt."
Aníta og Dean ásamt fjölskyldum og vinum ætla að dvelja á Santorini í nokkurn tíma.
„Við ætlum að halda tveggja vikna brúðkaup," segir Aníta innt eftir því hvort parið ætli í brúðkaupsferð. „Og kannski stinga af hér og þar."-mmf