Körfubolti

Þrettándu lokaúrslitin hjá Guðjóni - setur nýtt met í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur.
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur. Mynd/Daníel
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, setur nýtt met í kvöld þegar hann tekur þátt í sínum þrettándu lokaúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn annaðhvort sem leikmaður eða þjálfari.

Guðjón átti metið áður með þeim Sigurði Ingimundarsyni og Teiti Örlygssyni. Sigurður tók þátt í sex lokaúrslitum sem leikmaður og hefur tekið þátt í sex lokaúrslitum sem þjálfari. Teitur tók þátt í öllum sínum tólf úrslitaeinvígum sem leikmaður eða spilandi þjálfari (2001).

Guðjón er nú kominn annað skipti sem þjálfari liðs í lokaúrslitin en hann gerði Keflavík að Íslandsmeisturum með Fali Harðarsyni árið 2004.

Guðjón hefur alls orðið sjö sinnum Íslandsmeistari en hann vann sex sinnum titilinn sem leikmaður Keflavíkur: 1989, 1992, 1993, 1997, 1999 og 2003.

Oftast tekið þátt í lokaúrslitum karla:

Guðjón Skúlason 13 sinnum (11 sem leikmaður + 2 sem þjálfari)

Teitur Örlygsson 12 (12+0)

Sigurður Ingimundarson 12 (6+6)

Gunnar Einarsson 9 (9+0)

Falur Harðarson 9 (8+1)

Nökkvi Már Jónsson 9 (9+0)

Valur Ingimundarson 8 (6+2)

Friðrik Ragnarsson 8 (7+1)

Ísak Tómasson 8 (8+0)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×