Lífið

Bjóða upp á kaffi í stað súpu á Fiskideginum

Svanhildur Hólm og Logi Bergmann leyfa gestum að smakka fiskisúpuna sína. Almenningur fær ekki að njóta súpunnar í ár.
Svanhildur Hólm og Logi Bergmann leyfa gestum að smakka fiskisúpuna sína. Almenningur fær ekki að njóta súpunnar í ár.
„Mér líður eins og föðurlandssvikara að vera ekki með súpu. Mér finnst eins og það sé nánast þegnskylda að gera þetta,“ segir Svanhildur Hólm, framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Hún og eiginmaður hennar, sjónvarpsmaðurinn Logi Bergmann Eiðsson, ætla ekki að bjóða almenningi upp á fiskisúpu á föstudaginn, kvöldið fyrir Fiskidaginn mikla á Dalvík. Í staðinn ætla þau að bjóða gestum upp á kaffi, auk þess sem hljómsveitin Hvanndalsbræður kemur í heimsókn, eins og undanfarin ár. Og núna verður sjálfur Magni Ásgeirsson með þeim í för.

Svanhildur og Logi eignuðust dótturina Hrafnhildi fyrir fjórum mánuðum og hún þarf á óskiptri athygli þeirra að halda í ár. „Hrafnhildur er bara fjögurra mánaða og þetta er alveg þriggja daga vinna,“ segir Svanhildur, sem fékk um eitt þúsund manns í heimsókn í fyrra. Þá eldaði hún um 150 lítra af fiskisúpu fyrir glorsoltna gestina. „Við höfum gert þetta síðan við keyptum okkur hús á Dalvík. Við komumst að þeirri niðurstöðu að ef við ætluðum einhvern tímann að sleppa þessu þá væri það árið sem við værum með fjögurra mánaða dóttur,“ segir hún.

Svanhildur ætlar reyndar að elda fiskisúpu þennan dag en aðeins fyrir nána vini og ættingja. „Við verðum með gesti úti í garði sem ég hef venjulega séð minna af og aðallega þá til að ná í skottið á þeim til að láta þá brytja niður grænmetið. Núna ætla ég að gefa fólki að borða og tala við það,“ segir hún. „Ég læt mig jafnvel dreyma um að smakka fiskisúpu í öðrum húsum því það er fullt af fólki sem býr líka til fiskisúpu sem ég hef aldrei farið til.“

- fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.