Viðskipti erlent

Viktoría prinsessa er efni í kauphallarhákarl

Brúðkaup sænsku prinsessunnar Viktoríu stendur fyrir dyrum og mikið rætt um allar hliðar málsins í sænskum fjölmiðlum. Nú hefur Dagens Industri fundið það út að Viktoría virðist vera ágætt efni í kaupahallarhákarl (börshaj).

Dagens Industri hefur kannað hlutabréfaeignir einstakra meðlima sænsku konungsfjölsksyldunnar og í ljós kemur að Viktoría er þeirra best til að ávaxta sitt pund. Raunar stendur prinsessan sig mun betur en flestir aðrir á hlutabréfamarkaðinum í Stokkhólmi. Dagens Industri telur að kannski njóti hún þar góðs af valdamiklum vinum sínum.

Viktoría á hluti í 14 stórum fyrirtækjum sem skráð eru á markað í Svíþjóð. Hlutabréfaeignir hennar nema samtals 14,1 milljón sænskra kr. og hafa vaxið um 14% síðan sumarið 2008. Á þessum tíma hefur sænska úrvalsvísitalan hinsvegar aðeins hækkað um 5%.

Prinsessan, og krúnuerfingi Svíþjóðar, á meðal annars hluti í H&M en forstjóri þar er Karl-Johann Person sem er náinn vinur Viktoríu. Bæði hann og eiginkonu hans, Leonie, er boðið í brúðkaup Viktoríu á laugardaginn kemur.

Af öðrum félögum sem Viktoría á hluti í má nefna Handelsbanken, Ericson, Electrolux, SEB og Husqvarna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×