Sport

Lance Armstrong leggur hjólið endanlega á hilluna

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Lance Armstrong.
Lance Armstrong. AFP
Bandaríska goðsögnin Lance Armstrong hefur tilkynnt að hann sé hættur keppnishjólreiðum, aftur. Armstrong ákvað að draga fram hjólið fyrir nokkrum árum eftir að hafa hætt en segist nú vera endanlega hættur.

Armstrong er 38 ára gamall og hefur unnið Tour de France sjö sinnum. Hann hætti árið 2005 en hann endaði keppnina núna í 23 sæti.

"Keppnin hefur verið góð fyrir mig en ég get ekki logið, ég er tilbúinn til að hætta," sagði Armstrong sem lenti í nokkrum óhöppum í Frakklandi.

"Ég er bara glaður að þremur vikum af þjáningum er lokið og ég get farið heim. Ég þarf ekki að stressa mig á því að keppa á hverjum degi."

Draumur hans um áttunda sigurinn hvarf á tólfta degi þegar hann datt tvisvar og tapaði um tólf mínútum.

Fjórtán ár eru liðin síðan Armstrong barðist fyrir lífi sínu þegar hann fékk krabbamein. Góðgerðarsamtök hans eru fyrir löngu orðin fræg og mun hann vinna fyrir þau áfram.

Hann keppti í treyju númer 28 í Tour de France sem táknaði að 28 milljónir manna um allan heim berjast við krabbamein.

"Hvað sem hann gerir, þá er hann goðsögn," segir Alain Gallopin, einn af framkvæmdastjórum Radio Shack liðsins sem Armstrong keppti fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×