Körfubolti

Keflvíkingar hafa aldrei tapað oddaleik um titilinn á heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keflvíkingarfagna níunda Íslandsmeistaratitli sínum fyrir tveimur árum.
Keflvíkingarfagna níunda Íslandsmeistaratitli sínum fyrir tveimur árum.

Keflvíkingar eru gestgjafar í kvöld í fjórða sinn í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn þegar Keflavík og Snæfell spila hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla í körfubolta. Leikurinn hefst klukkan 19.15 í Toyota-höllinni í Keflavík og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Keflvíkingar hafa aldrei tapað oddaleik um titilinn á heimavelli, þeir unnu 17 stiga sigur sigur á KR-ingum 1989, unnu Valsmenn með 9 stigum þremur árum síðar og unnu síðan nágranna sína í Njarðvík með sex stigum í síðasta oddaleik sínum um titilinn sem fram í Keflavík 22. apríl 1999.

Guðjón Skúlason og Axel Nikulásson skoruðu báðir 19 stig í 89-72 sigri Keflavíkur á KR 22. mars 1989 og Nökkvi Már Jónsson kom skammt á eftir með 16 stig. Keflavík var komið 15 stigum yfir í hálfleik, 45-30, og vann öruggan sigur.

Jónatan Bow skoraði 23 stig, Nökkvi Már Jónsson var með 19 stig og Jón Kr. Gíslason skoraði 16 stig þegar Keflavík vann 77-68 sigur á Val 11. apríl 1992. Keflavík vann þá tvo síðustu leiki sína í úrslitaeinvíginu.

Falur Harðarson skoraði 29 stig og gaf 5 stoðsendingar í 88-82 sigri Keflavík á Njarðvík 22. apríl. Damon Johnson var með 22 stig, 16 fráköst og 5 stoðsendingar í leiknum og Gunnar Einarsson skoraði 13 stig.

Keflvíkingar hafa alls unnið Íslandsmeistaratitilinn níu sinnum frá upphafi og í sjö af þessum níu skiptum hefur liðið tryggt sér titilinn á heimavelli sínum á Sunnubrautinni.

Oddaleikir um Íslandsmeistaratitilinn í Keflavík

1989: Keflavík 89-72 KR

1992: Keflavík 77-68 Valur

1999: Keflavík 88-82 Njarðvík

2010: Keflavík ??-?? Snæfell

Hvar hafa Keflvíkingar orðið Íslandsmeistarar:

1989 Keflavík (í Keflavík 22. mars 1989)

1992 Keflavík (í Keflavík 11. apríl 1992)

1993 Keflavík (í Keflavík 31. mars 1993)

1997 Keflavík ( í Keflavík 6. apríl 1997)

1999 Keflavík (í Keflavík 22. apríl 1999)

2003 Keflavík (í Grindavík 10. apríl 2003)

2004 Keflavík (í Keflavík 10. apríl 2004)

2005 Keflavík (í Stykkishólmi 9. apríl 2005)

2008 Keflavík (í Keflavík 24. apríl 2008)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×